44 komast ekki inn í hús þrátt fyrir innlögn

Már Kristjánsson fram­kvæmda­stjóri lyflækn­inga- og bráðaþjón­ustu.
Már Kristjánsson fram­kvæmda­stjóri lyflækn­inga- og bráðaþjón­ustu. Ljósmynd/Lögreglan

Holskefla smitsjúkdóma herjar á landann um þessar mundir. Bráðamóttaka Landspítalans ber þess merki, en þegar þetta er ritað voru þar 70 sjúklingar innlagðir, þar af 44 sem ekki „komast inn í hús“, auk þess sem allar legudeildir spítalans eru yfirfullar, að sögn Más Kristjánssonar, fram­kvæmda­stjóra lyflækn­inga og bráðaþjón­ustu

„Þetta eru venjulegar árstíðabundnar veirusýkingar. Við erum með tvær tegundir inflúensu að ganga, A og B, svo erum við ennþá með svolítið af Covid-19 auk annarra kórónuveirusýkinga. Þá geisar einnig RS-veirufaraldur og svo metahúman-veirufaraldur. Við erum líka með einstaka parainflúensur.“

Ótti manna að raungerast

Allar þessar veirusýkingar hafa nú verið að leggjast á samfélagið. Með jólum og tilheyrandi samkomuhaldi dreifast þær vel, en að sögn Más er þetta ástand miklu umsvifameira en venjulega á þessum árstíma. 

„Það hefur verið talað um að það sé vegna samkomutakmarkana undanfarin ár. Þá dró úr þessum pestum enda var fólk minna í samskiptum hvert við annað. Pestir þurfa að ganga á  milli svo að það nái að byggjast upp hjarðónæmi, sem temprar svona faraldra.“

Már bendir á að það hafi verið rætt, síðasta sumar, að veirur sem hafi legið í dvala gætu komið til með að leggjast þungt á okkur í einum hvelli eftir að tannhjól samfélagsins færu aftur af stað eftir heimsfaraldurinn. 

„Nú hefur raungerst sá ótti manna. Þetta er ekki séríslenskt heldur er þetta alþjóðlegt vandamál.“

Sumir smitist af nokkrum veirum í einu

Þannig má segja að vandinn sé þríþættur. Í fyrsta lagi eru fleiri veirusýkingar að ganga en vanalega, dæmi eru jafnvel um að sjúklingar séu smitaðir af þremur veirum samtímis og getur það reynst afar þungbært og jafnvel hættulegt.

Í öðru lagi hefur ónæmiskerfi einstaklinga verið minna útsett fyrir pestum síðustu ár og á því erfiðara með að takast á við nýjar sýkingar. Getur þetta sérstaklega valdið vandræðum fyrir aldraða eða þá sem standa höllum fæti, þegar kemur að ónæmi, vegna veikinda eða lyfjagjafar.

Í þriðja lagi þá er viðvarandi mönnunarvandi á Landspítala. Þegar svo mikið framboð er af sjúklingum bitnar það á þjónustunni og spítalinn lendir í vanda með að sinna öllum þeim sem til hans leita. 

„Við erum að reyna að bregðast við, sinna okkar skyldum og okkar fólki. Við höfum reynt að finna fólk til að opna fleiri rúm og við erum í samráði við hin sjúkrahúsin að senda ekki nema þá sem eru allra veikastir. Við höfum beint því til fólks að snúa sér að heilsugæslunni og læknastofum ef það upplifir minni veikindi, en við viljum samt ekki fæla fólk fá okkur. Það er talsverð bið eftir þjónustu fyrir þá sem eru með minni veikindi.“

Á meðan þjónustuframboðið er takmarkað neyðist spítalinn til að forgangsraða …
Á meðan þjónustuframboðið er takmarkað neyðist spítalinn til að forgangsraða þeim verkefnum sem koma upp með einhverjum hætti. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Verðum að láta þetta yfir okkur ganga

Spurður hvernig hann upplifi ástandið í þessum fjölþætta veirufaraldri, samanborið við hvernig það var í Covid-faraldrinum, segir Már að það gildi í raun það sama um þessar pestir og gilti um Covid. 

„Þetta smitast eins, með úðasmiti og snertismiti. Það væri heppilegt ef það væri víðtækari grímunotkun í samfélaginu og ennþá víðtæk dreifing á handspritti. Það væri líka ákjósanlegra ef fólk væri minna í gleðskap saman, með tilliti til útbreiðslu þessara veirusýkinga. Það er þó bara ef við lítum á stöðuna út frá því eina sjónarhorni. Það er svo allt annað mál hvort maður vilji gera það.“

Már segir að þetta ástand sé líklega eitthvað sem við verðum að láta yfir okkur ganga, en á meðan þjónustuframboðið er takmarkað neyðist spítalinn til að forgangsraða þeim verkefnum sem koma upp með einhverjum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert