Vegagerðin á ekki í samstarfi við Google, en forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu vonast til þess svo miðla mætti betur upplýsingum um vegakerfið til ferðamanna.
mbl.is greindi frá því í september að fulltrúar kortadeildar Google höfðu haft samband við Vegagerðina.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir stofnunina hafa átt í tölvusamskiptum við tæknirisann en þau hafi gengið hægt fyrir sig.
Vegagerðin sendir nú frá sér upplýsingastraum á samevrópskum staðli svo auðvelt sé fyrir leiðsögufyrirtæki að nýta sér þær. Þá geta fyrirtækin tekið tillit til lokana og færðar.
„Við getum ekki gert annað en það að koma upplýsingunum á framfæri. Við stjórnum ekki þessum fyrirtækjum, þó að við séum að reyna að vera í sambandi við þau og fá þau til þess að nýta upplýsingarnar frá okkur,“ segir hann.
„Ég held að Google sé ekki að nota upplýsingar frá okkur.“
G. Pétur nefnir einnig að það þurfi að samræma vegaþekju Íslands en ferðamenn hafa villst á vegi sem hvergi eru skráðir, nema til dæmis á Google Maps.
„Við veitum þessar upplýsingar en það eru yfirleitt vandræði með þessi leiðsögukerfi, þau eru líka að senda fólk hist og her. Vandræðin eru líka að fólk treystir á þau í blindni. Ferðamenn er sendir þess vegna á fjallvegi sem eru ekki skráðir.“
Bandarísk fjölskylda festist í gær á ófærum vegi eftir að hafa fylgt GPS-leiðsagnarkerfi. Misskilningurinn virðist hafa sprottið upp eftir að vegi var lokað, sem fór inn í kerfið, en þar sem ófæri vegurinn var tæknilega opinn reiknaði kerfið nýja leið um hann.
Spurður hvernig hægt sé að betur koma í veg fyrir misskilning af þessari gerð segist G. Pétur hreinlega ekki vita það.
„Ófærðin er merkt hjá okkur og fer í upplýsingastrauminn okkar eins og allt annað. Þá er vegurinn merktur ófær. Það er ekki bannað að aka hann. Þegar vegur er lokaður er öll umferð bönnuð en þegar hann er ófær þá er hann bara ófær.“