Verður 71 árs kuldamet slegið?

Kuldakastið mun vara út árið. Ef spáin rætist verður 71 …
Kuldakastið mun vara út árið. Ef spáin rætist verður 71 árs met slegið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kuldakastið í Reykjavík verður líklega það mesta sem mælst hefur í 71 ár, eða frá árinu 1951, ef litið er til meðalhita hvers sólarhrings. Veðurstofa Íslands spáir því að kuldametið verði slegið á nýársdag.

Hiti mældist undir frostmarki í 26 daga samfellt veturinn 1951. Kuldatíðin hefur nú staðið yfir í 22 daga en þann 1. janúar mun hún hafa staðið yfir í 26 daga, sem myndi jafna metið.

Frosttölur hafa verið háar í hægviðri og náð allt að 24,4 stigum í kuldapollinum í Víðidal.

Kuldakast sem fer í sögubækur

„Þetta er farið að verða mjög merkilegt kuldakast. Þetta er farið að verða kuldakast sem fer í sögubækur. Spáin er þannig að þetta ætti að halda út árið,“ segir Halldór Björnsson, haf- og veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann bendir á að fleiri en ein leið séu til þess að meta kuldakastið. Sé miðað við hámarkshita hvers dags hafi frostakaflanum í Reykjavík lokið fyrir nokkrum dögum, þar sem hiti hafi farið í 0,5 stig á jóladag. Samkvæmt þeirri mælingu hafi kuldakastið staðið yfir í fjórtán daga, sem setur kuldakastið í þriðja sætið frá árinu 1949.

„Það er býsna merkilegt. Að vera í þriðja sæti í gögnum sem eiga upphaf það ár. Það er býsna mikið að slá met sem er svo gamalt,“ segir Haraldur. Er þessi leið talin varkárari en hin.

Kuldapollur lendir á okkur

Spáin er þó ekki einhlít og er ákveðinn samkvæmisleikur að sjá hvernig úr spilast. 

„Hitinn fer nærri núlli á gamlársdag en við erum að sjá að það er ekki líklegt,“ segir Halldór.

Spurður hvort sama kuldakast sé yfir okkur og Bandaríkjunum segir hann:

„Ef við skiptum Norðurslóðum í tvennt þá hefur verið frekar kalt í vesturhlutanum. Þetta er pínulítið spurning um hvar kuldapollurinn lendir. Og hann lendir mikið á okkur í ár, óvenjulega mikið, sem er áhugavert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert