Almenningur þarf að finna fyrir öryggi

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs. Magnus Fröderberg/Norden.org

„Þetta kom mér verulega á óvart,“ segir Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs, um ákvörðun dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, um að heimila lögreglu að hefja undirbúning að því að taka í notkun rafvarnarvopn.

Að sögn Steinunnar Þóru kom það henni á óvart að dómsmálaráðherra hafi tilkynnt slíka breytingu á reglugerð án umræðu eða samráðs við t.a.m. Alþingi þegar það liggur fyrir að taka málefni lögreglunnar til umfjöllunar.

„Þetta er mál sem ætti að fá dýpri eða meiri umfjöllun, m.a. á vettvangi þingsins,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Mörgum spurningum ósvarað

Steinunn Þóra segir að mörgum spurningum sé enn ósvarað hvað varðar fyrirhugaða notkun lögreglunnar á rafbyssum.

„Mörgum spurningum er ekki svarað, t.a.m. eiga rafbyssur að vera partur af daglegum búnaði lögreglunnar. Mér finnst það líka skrítið því að það liggur nú þegar fyrir frumvarp til breytingar á lögreglulögum á Alþingi.

Þannig mér finnst miklu eðlilegra í staðinn fyrir að ráðherra leggi til reglugerðarbreytingu sisvona að það sé rætt þar, á Alþingi, í samhengi við frumvarpið.“

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ýmsar leiðir til að auka öryggi

Aðspurð segir hún að það sé mikilvægt einkenni á löggæslu hérlendis að lögreglan beri ekki vopn.

„Almenningur hefur traust og er ekki hræddur við lögregluna. Þarna þarf að vinna það saman að lögreglan sé örugg í sínum störfum og að almenningur finni fyrir öryggi af lögreglunni.

Ég held að það séu ýmsar aðrar leiðir til þess en að auka á vopnaburð lögreglunnar, t.a.m. með því að fjölga í lögreglunni þannig að hún sé aldrei ein í verkefnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert