Rafhlaupahjól sjöfalt hættulegri en reiðhjól

Slys á rafhlaupahjólum vega upp á móti fækkun slysa á …
Slys á rafhlaupahjólum vega upp á móti fækkun slysa á erlendum ferðamönnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fækkun banaslysa í umferðinni er að töluverðu leyti tölfræðisveifla sem alltaf má búast við þegar tölur eru lágar, en banaslysum hefur almennt verið að fækka í Evrópu. Ekki síst vegna öruggari bíla, stöðugra umbóta í innviðum og stöðugrar viðleitni til að gera ökumenn öruggari með því að fá þá til að hegða sér betur í umferðinni.

Allt þetta á einnig við hér á landi, segir í skriflegu svari Samgöngustofu við fyrirspurn mbl.is um fækkun banaslysa í umferðinni.

Níu hafa látist í umferðarslysum hér á landi það sem af er ári og eru það jafn margir og létust í umferðinni á síðasta ári. Um er að ræða svipaðan fjölda og árin 2020 og 2019, en á árunum 2015 til 2018 létust töluvert fleiri.

Keyra hugsanlega minna sjálfir 

Auk þeirra skýringa sem taldar eru upp að ofan hafði Covid-faraldurinn mikil áhrif á umferð hér landi síðustu tvö ár, bæði ferðahegðun okkar Íslendinga og fjölda ferðamanna hér á landi, sem voru nánast engir.

„Nú eru ferðamennirnir komnir aftur en umræðan undanfarið hefur ekki að jafnmiklu leyti og áður snúið að reynsluleysi ferðamanna gagnvart aðstæðum. Hugsanlega keyra ferðamenn sjálfir minna en áður eða stærra hlutfall er reyndara í akstri í sambærilegum aðstæðum og hér eru. Ein skýring á fækkun banaslysa árið 2019 er að ekki voru jafnalvarleg rútuslys það árið eins og árin á undan,“ segir í svari Samgöngustofu.

Banaslysum í umferðinni hefur fækkað á síðustu árum.
Banaslysum í umferðinni hefur fækkað á síðustu árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki mikil breyting á fjölda slasaðra

Ekki hefur hins vegar orðið mikil breyting á fjölda slasaðra og alvarlegra slasaðra. Það að tölur yfir slasaða hafi lækkað árið 2020 má rekja til Covid og strangra samkomutakmarkana því þá voru mun færri á ferðinni í eðlilegu árferði. Faraldurinn var enn við líði árið 2021, en þá hækkuðu tölurnar engu að síður aftur. Staðan var að breytast; bólusetningar að hefjast og einkenni vægari.

„Vaxandi vilji til að leggja takmarkanir að baki og nokkur óþolinmæði gagnvart öryggisráðleggingum hins opinbera sást m.a. í könnun á aksturshegðun almennings það ár. Auk þess komu rafhlaupahjólin til sögunnar á þessum árum. Má segja að slys á rafhlaupahjólum hafi að miklu leyti vegið upp á móti fækkun slysa á erlendum ferðamönnum.“

Fleiri slasast á rafhlaupahjóli

Á síðustu fjórum árum hefur alvarlegum slysum og banaslysum á rafhlaupa- og reiðhjólum fjölgað mikið, en það er í samræmi við aukna notkun þeirra. Árið 2021 slösuðust 65 alvarlega eða létust í tengslum við notkun slíkra farartækja en heildarfjöldi þeirra sem slasaðist alvarlega eða lést í umferðaslysum það ár var 208.

Rafhlaupa- og reiðhjólaslys voru því rúm 31 prósent af öllum alvarlegum umferðarslysum árið 2021 en aðeins rúm 10 prósent árið 2018.

Fleiri slasast á rafhlaupahjóli en venjulegu reiðhjóli þrátt fyrir að fjórum eða fimm sinnum fleiri nýti sér seinni ferðamátann, að segir í svari Samgöngustofu. Með einföldum útreikningum megi fá út að sex eða sjöfaldur munur sé á hættunni sem fólk er í á rafhlaupahjóli en reiðhjóli.

Tölurnar aðeins skárri en á síðasta ári 

Ekki hefur verið lokið við skráningu þessa árs en tölurnar stefna í að verða svipaðar eða aðeins skárri en árið 2021.

Slösuðum ferðamönnum fjölgar aftur eftir því sem ferðamönnum fjölgar í landinu en hver og einn ferðamaður virðist þó vera öruggari heldur en hann var fyrir Covid. 

Slösuðum á raf- og reiðhjólum virðist einnig ætla að fjölga eitthvað en er sú fjölgun virðist vera minni en á síðustu árum, samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu.

Þá virðast ungir ungir ökumenn standa sig töluvert betur en árið 2021 og einnig virðist hafa dregið úr framanákeyrslum og útafakstri, þrátt fyrir fjölgun ferðamanna.

mbl.is