Barátta um afkastagetu ferðaþjónustunnar

Óveður hefur sett strik í reikninginn undanfarið.
Óveður hefur sett strik í reikninginn undanfarið. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segist lítast betur á árið 2023 heldur en 2022, þrátt fyrir að nýliðið ár hafi gengið mun betur en spár gerðu ráð fyrir.

„Bókunarstaðan er mjög góð inn á þetta ár og inn á háönnina sérstaklega. Við teljum líklegra að það verði barátta um afkastagetuna frekar heldur en hitt alveg eins og var á háönninni á þessu ári,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.

„Stóra spurningin núna er kannski frekar hvernig axlirnar munu líta út, það er að segja vorið og inn í haustið og svo yfir veturinn. Hvort við munum fá meiri dreifingu á gestum yfir á mánuðina fyrir og eftir háönnina heldur en áður og hvort við náum að nýta betur innviðina á þeim tíma.“

Jóhannes telur líklegra að það verði barátta um afkastagetu ferðaþjónustunnar …
Jóhannes telur líklegra að það verði barátta um afkastagetu ferðaþjónustunnar frekar heldur en hitt um háönnina á þessu ári. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Liðið ár kom betur út

„Árið [2022] í heild sinni virðist vera að koma afar vel undan þessum Covid-vetri. Miðað við forsendurnar í upphafi ársins varðandi eftirspurn erum við að koma mun betur út heldur en áætlað var,“ segir Jóhannes.

Hann segir að almennt séð hafi ferðamenn stoppað hér lengur og að dvalarlengdin hafi aukist um heila gistinótt sem er töluvert mikil breyting í heildar samhenginu.

„Það þýðir það líka að verðmæti sem hver ferðamaður er að skilja eftir sig eru meiri en fyrir faraldur.“

Jóhannes segir að Asíumarkaðurinn, sérstaklega Kína, hafi ekki enn tekið við sér eftir faraldurinn en aðrir markaðir hafi komið sterkir inn í staðinn.

Hann segir jákvætt að áhrif af völdum stríðsins í Úkraínu hafi verið minni hér á landi heldur en óvissuþættir í upphafi stríðsins gerðu ráð fyrir.

25-30 þúsund ferðamenn yfir hátíðirnar

Jóhannes segir að fluglendingar í Keflavík á aðfangadag og gamlársdag hafi í báðum tilfellum verið heldur fleiri en þær voru árið 2019.

„En svo vitum við ekki nákvæmlega hvort allar þessar flugvélar hafi verið fullar.“

„Við höfum skotið á að þetta sé svipað og verið hefur á árunum fyrir faraldur, kannski á milli 25-30 þúsund manns yfir jól og áramót samantalið,“ segir Jóhannes um ferðamenn sem voru á landinu yfir hátíðirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert