Ábyrgðarhlutur að borgin geri ekki ráðstafanir

Snjómokstur í Breiðholti fyrir jól, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks gagnrýna andvaraleysi Reykjavíkurborgar …
Snjómokstur í Breiðholti fyrir jól, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks gagnrýna andvaraleysi Reykjavíkurborgar við moksturinn. mbl.is/Árni Sæberg

„Undanfarinn hálfan mánuð hafa Reykvíkingar kynnst getuleysi borgaryfirvalda gagnvart þeirri grunnskyldu að tryggja að götur borgarinnar séu sæmilega færar og að fólk komist til og frá heimilum sínum,“ sagði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, þegar fyrsta mál fyrsta borgarstjórnarfundar ársins, fyrirkomulag snjóruðnings á götum borgarinnar, kom til umræðu í dag.

Tók borgarfulltrúinn það fram í ræðu sinni að starfsmenn borgarinnar og þeir verktakar, sem snjómokstri sinna, hefðu ekki látið sitt eftir liggja við vinnuna. Hins vegar sannaðist það ítrekað að pólitískt skipulag og verkstjórn snjóruðnings í borginni væri með öllu óviðunandi.

Vonirnar urðu að engu

„Þegar þörfin var sem mest í þarsíðustu viku voru 22 snjóruðningstæki að störfum í Reykjavík, 20 í Hafnarfirði, 20 í Kópavogi og tíu í Garðabæ. Slíkar tölur sýna metnaðarleysi borgarstjóra í málaflokknum enda búa 56 prósent fleiri íbúar í Reykjavík en í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ til samans,“ sagði Kjartan.

Eftir umræður um snjóruðning á fundi borgarstjórnar fyrir jól hefðu vonir verið bundnar við að borgarstjóri lærði af klúðrinu og stæði betur að verki eftir fannfergi þriðja dag jóla sem spáð hefði verið með löngum fyrirvara. Hefðu þessar vonir orðið að engu þegar yfirmaður vetrarþjónustu í Reykjavík tilkynnti 27. desember að sami fjöldi snjóruðningstækja sinnti mokstri og eftir snjókomuna tíu dögum áður, eða um 20 tæki.

„Gullna reglan við snjóhreinsun felst í því að setja sem mestan kraft í verkið á meðan snjór er nýfallinn, óþjappaður og meðfærilegur. Eftir því sem lengri tími líður frá snjókomu verður erfiðara að eiga við hjarnið,“ sagði Kjartan og bætti því við að stórbæta þyrfti skipulag vetrarþjónustu í Reykjavík og gera „stjórnendum á plani“ kleift að kalla út mun fleiri tæki til aðstoðar fastaflotanum en gert hefði verið.

„Við erum hér að tala um höfuðborg landsins“

Þá tók Marta Guðjónsdóttir, flokkssystir Kjartans, til máls og kvað engan skyldi undra að snjóaði í nyrstu höfuðborg jarðar yfir veturinn. „En ótrúlegt en satt virðist það alltaf koma þeim meirihluta á óvart sem hefur stjórnað borginni síðastliðin kjörtímabil. Þegar í óefni er komið er alltaf viðkvæðið að draga megi lærdóm af slakri frammistöðu við snjóruðninginn,“ sagði Marta.

Rétt fyrir jólin hefði ófremdarástand skapast enda enn verið að endurskoða nýja þjónustuhandbók um snjóruðning sem ekki hefði verið tilbúin og einungis tvær skóflur notaðar til snjómoksturs.

„Við erum hér að tala um höfuðborg landsins sem ræður ekki við lágmarksgrunnþjónustu, að ryðja götur þegar nágrannasveitarfélögin, á sama tíma, sinna þessu hlutverki sómasamlega. Það er ábyrgðarhlutur að borgin geri ekki ráðstafanir til að vera í stakk búin til að ryðja götur borgarinnar þegar mikil snjókoma er og ófært um alla borg,“ sagði borgarfulltrúinn.

Kvað hún það nauðsynlegt að til væri neyðaráætlun um snjómokstur sem virkja mætti strax og láta verkin tala í stað þess að setja málið í nefnd „til að endurskoða einhverja þjónustuhandbók sem gerir lítið til að bæta ástandið“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert