Níu fluttir á Landspítala eftir slys við Öldulón í Öræfum

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Alvarlegt bílslys varð á Suðurlandsvegi við Öldulón austan Fagurhólsmýrar í dag og barst tilkynning til Landhelgisgæslunnar á þriðja tímanum í dag.

Oddur Árnason yfirlögreglumaður á Suðurlandi segir að enn sé verið að rannsaka tildrög slyssins en árekstur varð við lónið þegar tvær bifreiðar skullu saman sem komu úr andstæðum áttum. Níu einstaklingar slösuðust við áreksturinn, en ekki er vitað enn hversu alvarleg meiðslin eru.

Landspítalinn í Fossvogi - Landspítali - Borgarspítalinn - bráðamóttakan - …
Landspítalinn í Fossvogi - Landspítali - Borgarspítalinn - bráðamóttakan - bráðamóttaka Landspítalans - mbl.is/Jón Pétur

„Þegar við fengum útkallið, var TF-Sif vél Landhelgisgæslunnar ekki mjög langt frá og henni var snúið við til að fara á slysstað auk þess sem tvær þyrlur voru sendar af stað,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is. 

„Níu manns alls voru fluttir til Reykjavíkur, sex með þyrlunum og þrír með TF-Sif,“ segir hann og bætir við að það sé mjög óvenjulegt að þrjú loftför á vegum Landhelgisgæslunnar séu virkjuð á sama tíma. Neyðarkallið kom til Landhelgisgæslunnar á þriðja tímanum í dag.

Eins og áður segir er ekki vitað um ástand hinna særðu, en vélarnar lentu við Landspítalann í Fossvogi rétt fyrir sex í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert