Vill að SA losi sig úr þvermóðskunni

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ásamt félagsfólki er þau mættu …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ásamt félagsfólki er þau mættu til fundar í húsi ríkissáttasemjara fyrir jól. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að það sé ábyrgð og skylda Samtaka atvinnulífsins (SA) að gera við þau kjarasamning sem henti félagsfólki stéttarfélagsins.

Næsti fundur í kjaraviðræðum Eflingar og SA hefst klukkan 13 á morgun hjá ríkissáttasemjara, en síðasti opinberi fundur var fyrir jól.

Spurð hvernig fundurinn leggst í hana fundurinn segist Sólveig Anna vona að Samtök atvinnulífsins átti sig á því að kjarasamningurinn sem þau undirrituðu við Starfsgreinasambandið henti ekki félagsfólki Eflingar. Hún vonar „að þau geti losað sig úr þessari þvermóðsku sem þau eru föst í, að þau virði sjálfstætt samningsumboð Eflingar og komi á morgun á fundinn með þá vitneskju í farteskinu að það er þeirra skylda og ábyrgð að gera við okkur kjarasamning sem hentar okkur Eflingarfólki“.

Sólveig Anna Jónsdóttir ásamt Eflingarfólki í húsnæði ríkissáttasemjara.
Sólveig Anna Jónsdóttir ásamt Eflingarfólki í húsnæði ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mættu með „ítarleg og góð gögn“

Sólveig Anna kveðst þó á þessum tímapunkti ekki vera „raunverulega mjög vongóð um að það gerist“. Það sem hafi átt sér stað undanfarið gefi henni ekki tækifæri til þess að vona það.

Þar á hún við hvernig SA tóku síðasta tilboði Eflingar og hvernig vinnufundur þeirra hjá ríkissáttasemjara á milli jóla og nýárs gekk. Hún segist hafa mætt ásamt sínum samstarfsmanni á fund fulltrúa SA með „ítarleg og góð gögn“ sem voru unnin upp úr félagaskrá Eflingar. Þau hafi sýnt fram á hvernig félagatal Eflingar er uppbyggt og hvar fólk raðast samkvæmt starfsaldri.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, við upphaf fundarins fyrir jól.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, við upphaf fundarins fyrir jól. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við bjuggumst við því að SA myndu koma með eitthvað á þann fund en svo var ekki. Þetta var þá enn einn fundurinn sem Efling mætir á vel undirbúin með raunveruleg gögn sem styðja málflutning samninganefndarinnar en Samtök atvinnulífsins mæta til leiks með ekkert nema þvermóðskuna,“ greinir Sólveig Anna frá.

Spurð segir hún engan samningsvilja til staðar hjá SA og bætir við að mjög undarlegt sé fyrir hana og samninganefnd Eflingar að hafa verið í svokölluðum samningaviðræðum vikum saman „en þurfa svo að horfast í augu við það að það eru auðvitað engar eiginlegar samningaviðræður í gangi“.

Með hroka og tilætlunarsemi

Hún segir Eflingu sinna skyldum sínum af mikilli hollustu en viðsemjendurnir „koma aftur og aftur á fundi með ekkert með sér nema hrokann og tilætlunarsemina og einhvers konar skipanir um að við eigum einfaldlega að taka samningi sem hentar okkur ekki og það sé ekki um neitt annað að ræða“.

Samningsforsendur Eflingar eru að lægstu taxtalaun verði hækkuð til að endurheimta kaupmáttinn sem tapast hefur frá síðustu launahækkun. Sólveig Anna bendir á að kaupmáttarrýrnunin sé mikil og verðbólgan sömuleiðis. Á sama tíma ríki mikið góðæri í fyrirtækjarekstri.

„Það er algjörlega óásættanlegt fyrir okkur að vinnuafl höfuðborgarsvæðisins, þau sem framleiða hagvöxtinn og halda hér öllu gangandi, eigi að ganga frá borði með miklu minna í höndunum en það sem dugar til þess að láta hlutina ganga upp. Það er óásættanlegt og það er fremur magnað að fylgjast með því hversu langt menn eru tilbúnir að ganga í að reyna að þröngva einhverju upp á fólk sem það vill ekki sjá,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert