Stakk mann fyrir framan tvo unga syni hans

Maðurinn var dæmdur í 18 mánaða fangelsi vegna árásarinnar. Þetta …
Maðurinn var dæmdur í 18 mánaða fangelsi vegna árásarinnar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann er dæmdur fyrir hnífaárás.

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir hnífstunguárás við Eyjabakka í Breiðholti en hann réðst gegn öðrum manni vegna deilna um skuld og greiðslu hennar. Sá sem fyrir árásinni varð var að sækja tvo drengi sína úr pössun hjá manninum og þáverandi kærustu hans þegar til átakanna kom. Áður hefur árásarmaðurinn hlotið dóma fyrir hættulegar árásir, m.a. í fimm ára fangelsi fyrir að stinga hálfbróður sinn.

Lögreglu barst tilkynning um málið 6. ágúst 2019, en þegar hún kom á vettvang var árásarmaðurinn, Ingi Páll Eyjólfsson, sitjandi á grasbletti við umferðaljós, en sá sem fyrir árásinni varð var á nálægu bílastæði með djúpan skurð á handleggi sem mikið blæddi úr. Stöðvaði lögreglan blæðinguna og flutti hann á slysadeild.

Hótaði fyrst að drepa manninn

Í skýrslutökum sagði Ingi að hinn maðurinn hefði upphaflega hótað sér vegna óuppgerðrar skuldar þegar hann var að koma heim. Sagði hann manninn hafa hótað sér líkamsmeiðingum og tekið af honum vörum sem hann hafði keypt í búð. Því næst hafi maðurinn kýlt hann allavega fimm sinnum í andlitið. Deilt var um nákvæm samskipti þeirra á þessu stigi, en báðir mennirnir staðfestu að til ágreining hefði komið á milli þeirra og vitni staðfestu það.

Þá viðurkenndi maðurinn að hafa ýtt við og slegið Inga, en sagði það hafa verið vegna ógnunar hans. Staðfesti eitt vitnið að Ingi hafi verið sleginn á þessum tímapunkti. Ingi viðurkenndi að hafa reiðst mikið eftir þetta og hótað manninum að hann ætlaði að sækja hníf og ef hann væri enn fyrir utan húsið þegar hann kæmi til baka myndi hann drepa manninn.

Stakk manninn fyrir framan syni hans

Því næst rauk Ingi inn í íbúðina og sótti hníf. Þáverandi kærasta hans lýsti því sem svo að Ingi hefði komið inn og leitað að hníf, en hún verið sofandi. Lýsti hún fari Inga sem trylltu og sagði ágreining hafa verið á milli mannanna vegna fíkniefna og peninga.

Á meðan Ingi fór inn í íbúðina fór maðurinn og sótti syni sína tvo og þegar hann var að ganga frá húsinu kom Ingi út með hnífinn. Sagðist hann fyrst hafa ætlað að stinga manninn í hjartað en svo hætt við og stungið hann í handlegginn sem og hann gerði.

Vöðvi fór í sundur

Fékk maðurinn 10-15 cm langan skurð og fór vöðvi, sem samsvarar þríhöfða, í sundur í handleggnum. Blæddi mikið og þurfti hann síðar á skurðaðgerð að halda. Sagðist hann oft fá verki í höndina eftir þetta og að hún þoli ekki mikið álag. Lögreglumaður sem kom á vettvang staðfesti að drengirnir hefðu að hluta til orðið vitni að atburðarásinni.

Í dómi héraðsdóms segir að ekki sé hægt að flokka árásina sem neyðarvörn. Þannig hafi Ingi farið inn í húsnæðið og komið til baka. „Hafði fullt tækifæri til að bregðast við með öðrum hætti en hann gerði,“ segir í dóminum. Þá hafi Ingi einnig komið aftan að manninum. „Getur honum á þeirri stundu ekki hafa staðið nein ógn af brotaþola,“ segir þar og bent er á að aðfarir hans hafi verið harkalegri en tilefni hafi verið til.

Stakk áður hálfbróður sinn

Ingi hefur áður komist í kast við lögin, en hann hlaut dóm árið 2007 og svo aftur árið 2009. Þá var hann dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að stinga hálfbróður sinn í bakið. Hafði Ingi þá verið í mikilli neyslu og bróðirinn verið fenginn af fjölskyldunni til að reyna að grípa í taumana, en Ingi verið óttasleginn og verið með hníf á sér og beitt gegn eldri bróður sínum.

Árið 2013 var Ingi einnig dæmdur vegna líkamsárásar og í þetta skiptið hlaut hann 15 mánaða dóm. Síðan þá hefur hann líka hlotið dóm fyrir fíkniefnalagabrot.

Auk þess að dæma Inga í 18 mánaða fangelsi var hann dæmdur til að greiða hinum manninum 660 þúsund í bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert