„Hennar framganga algjörlega óviðunandi“

Ólöf Helga, ritari Eflingar, fagnar niðurstöðu Félagsdóms.
Ólöf Helga, ritari Eflingar, fagnar niðurstöðu Félagsdóms. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég fagna því að því að Félagsdómur hefur staðfest það sem mér og öðrum fannst og töldum að væri rétt, að trúnaðarmaður hefði átt að njóta verndar þarna,“ segir Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, um dóm Félagsdóms sem komst að þeirri niðurstöðu að uppsögn Eflingar á trúnaðarmanni hefði verið ólögmæt og brotið hefði verið gegn kjarasamningi.

Uppsögn trúnaðarmannsins, Gabríels Benjamin, var hluti af hópuppsögn á skrifstofu Eflingar sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður félagsins, greip til eftir að hún náði aftur kjöri í febrúar á síðasta ári.

Ólöf segir það ekkert leyndarmál að hún hafi verið mótfallin uppsögnunum, en dómurinn sé mikilvægur til að staðfesta og styrkja stöðu trúnaðarmanna á vinnustöðum.

Sólveig gagnrýnir umfjöllun um dóminn

Sólveig Anna hefur gagnrýnt dóminn og umfjöllun um hann og í samtali við mbl.is í gær sagði hún það ekki hafa hvarflað að sér að stíga til hliðar vegna málsins. Þá skrifaði hún á Facebook-síðu sína að Gabríel væri „fáránlegur einstaklingur“ sem hefði skrifaða um hana „snarbilaða níðgrein.“

Þá sagði hún að Gabríel virtist ekki skilja dóminn. Hann ætti líklega erfitt með að lesa sér til gagns þegar „mikilmennskubrjálæðið“ væri „svona yfirþyrmandi“. Sagði hún dóminn ekki varða þá skipulagsbreytingu sem hafi verið framkvæmd. Hún væri lögmæt og stæði.

Reglur eigi ekki við um Sólveigu

Ólöf segir hvorki dóminn né viðbrögð formannsins hafa komið sér á óvart.

„Mér þykir rosalega leiðinlegt og miður að formanninum þyki í lagi að tala svona um fyrrverandi starfsmenn, eins og hún hefur gert eftir að dómurinn lá fyrir. Hún heldur áfram að gera lítið úr fyrrverandi starfsmönnum, til dæmis trúnaðarmanninum sem er nýbúinn að vinna mál,“ segir Ólöf.

„Mér finnst hennar framganga algjörlega óviðunandi,“ bætir hún við.

Framkoman sé hins vegar í takt við þá hegðun sem formaðurinn hafi áður sýnt af sér, að reglur og lög eigi ekki við um hana. „Hún er lýðræðislega kjörin og þarf ekki að fara eftir neinum reglum.“

Ólöf segir að aldrei eigi að fara í hópuppsagnir í nafni skipulagsbreytinga, hvort sem trúnaðarmaður sé í hópnum eða ekki. Sé fyrirtæki ekki í rekstrarerfiðleikum eða önnur ærin ástæða sé fyrir því að fara í hópuppsagnir, eigi ekki að framkvæma þær.

Meirihluti félaga hljóti að vera sammála

Hún ítrekar að hún sé ánægð með niðurstöðu Félagsdóms en þykir leiðinlegt að málið hafi þurft að fara alla þá leið, þar sem það hafi verið frekar borðleggjandi.

„Ég held að meirihluti Eflingarfélaga hljóti að vera sammála því að trúnaðarmenn eigi að njóta verndar. Að þetta sé mikilvægur og góður dómur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert