Ný afbrigði mögulega líklegri í Kína

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á næstu dögum munu stjórnvöld í Kína draga úr takmörkunum vegna heimsfaraldurs kórónaveiru og vinda ofan af núll-Covid stefnu sinni. Í kjölfarið hafa heyrst áhyggjuraddir í ríkjum Evrópu, varðandi komu kínverskra ferðamanna til álfunnar.

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir að miðað við þær upplýsingar sem við höfum frá Kína þá séu þau afbrigði kórónaveirunnar þar í landi afbrigði sem við þekkjum einnig héðan úr Evrópu, meðal annars frá Íslandi.

Um sé að ræða Ómíkron og undirafbrigði Ómíkron. Hún segir reyndar mögulegt að upplýsingarnar frá Kína séu ekki alveg fullnægjandi sökum þess hversu gríðarstórt og fjölmennt landið sé. Guðrún segir áhyggjurnar einna helst snúa að nýjum afbrigðum kóróniveirunnar.

Ný tilmæli frá Evrópusambandinu

„Sumir hafa áhyggjur af því að ný afbrigði séu líklegri í stóru ríki eins og Kína. Ef veiran fái að grassera þar um í einhvern tíma hafi hún tækifæri til að stökkbreytast með þeim hætti að það geti komið upp nýtt afbrigði, einmitt vegna þess hve landið er fjölmennt, þó fræðilega geti það að sjálfsögðu gerst í öðrum ríkjum líka. Þannig að menn óttast að ef stór hópur fólks fer af stað frá Kína og ef smit eru útbreidd á meðal þess fólks þá geti þau borist annað.“

Guðrún segir Kínverja sjálfa hafa gefið það út að þeir muni krefjast neikvæðrar niðurstöðu úr Covid-prófi frá komufarþegum til Kína og í gær bárust tilmæli frá Evrópusambandinu um að Evrópuríki verði hvött til að krefja komufarþega frá Kína um neikvæða niðurstöðu úr Covid-prófi.

Þá verði mælt með grímunotkun í flugi frá Kína til Evrópuríkja og farþegum bent á að viðhafa sóttvarnir. Evrópuríki eru einnig hvött til þess að gera Covid-próf á slembiúrtaki komufarþega frá Kína.

Ísland er aðili að samráðsvettvangi milli ríkja Evrópu um viðbrögð við alvarlegri heilsuvá yfir landamæri en Guðrún segir að þar sem ekki sé flogið beint frá Kína til Íslands geti landsmenn aðeins beðið rólegir og séð hvernig málin muni þróast í þeim ríkjum sem flogið er beint til frá Kína.

„Einhver ríki Evrópu haga sínum málum nú þegar eftir þessum tilmælum og þá er viðbúið að önnur ríki bætist í þann hóp.“

Hún segir einnig að einhver ríki muni bíða aðeins lengur og sjá hvernig málin þróast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert