Sagði nasistakveðjuna vera grín

Annar mannanna leiddur út úr héraðsdómi.
Annar mannanna leiddur út úr héraðsdómi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Annar mannanna sem eru ákærðir í hryðjuverkamálinu sagðist vera nasisti á meðan hinn sagðist vera mannvinur, trúa á guð og vera fermdur. Honum þætti vænt um litað fólk og samkynhneigða.

Þetta kemur fram í úrskurðum Landsréttar frá því í október sem nýlega voru birtir.

Hommar fengju of mikið pláss

Tekin var skýrsla af fyrrnefnda manninum 21. september þar sem hann sagðist hafa þekkt hinn manninn mjög lengi. Lýsti hann sér sem einangrunarsinna en aðrir kölluðu hann nasista. Sagðist hann oft stuða fólk og tala opinskátt, meðal annars um að skjóta þá sem sögðu eitthvað sem passaði ekki við skoðanir hans.

Lögreglan lagði hald á þrívíddarprentuð vopn í tengslum við málið.
Lögreglan lagði hald á þrívíddarprentuð vopn í tengslum við málið. mbl.is/Hólmfríður María

„Hann sagðist vera meðvitaður um að tala svona og sagði að fólk líki oft á tíðum ekki við það, því einangri hann sig. Aðspurður um samtökin „Right wing“ sagðist hann telja sig sem hluta af þeim samtökum. Hann sagði að hommar fengju of mikið pláss í samfélaginu og honum fyndist þeir vera áróður og að það ætti að banna þá frá börnum. Hann sagðist vera ósáttur við hvernig útlendingar streymdu inn í landið, vinni ekkert og lifi á kerfinu,“ segir  í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 6. október.

Allt í kaldhæðni

Hann sagði sig og félaga sinn hafa svartan húmor og allt sagt í kaldhæðni. Kvaðst hann ekki vera reiður maður heldur þætti honum almennt vænt um fólk.

Fram kemur einnig að þeir hafi rætt fjöldamorðingja og hyllt þá. 

Síðarnefndi maðurinn var í skýrslutöku spurður hvers vegna þeir heilsist með nasistakveðju og sagði hann það vera grín. Sagði hann hinn manninn sem er ákærður vera nasista sem hataði gyðinga og múslima.

Mennirnir tveir voru handteknir 21. september og sátu í varðhaldi til 13. desember. Þá felldi Landsréttur úr gildi gæsluvarðahaldsúrskurð yfir þeim frá því 9. desember. Varðhaldskrafan var byggð á þeirri forsendu að mennirnir væru hættulegir.

Ann­ar mann­anna er ákærður fyr­ir til­raun til hryðju­verka og stór­felld brot gegn vopna­lög­gjöf. Hinn er ákærður fyr­ir hlut­deild í til­raun til hryðju­verka og stór­felld brot gegn vopna­lög­gjöf

Áformað er að dómsmál verði þingfest miðvikudaginn 18. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert