Vopnalagahlutinn gæti farið til LRH

Málið er enn hjá héraðssaksóknara, en gæti að hluta eða …
Málið er enn hjá héraðssaksóknara, en gæti að hluta eða öllu leyti farið til LRH innan skamms. mbl.is/Hjörtur

Rannsókn embættis héraðssaksóknara á vopnalagabrotum sem tengjast inn í hryðjuverkamálið svokallaða stendur enn yfir, en líkur eru á því að hluti þeirra mála eða jafnvel öll fari að lokum yfir til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Samhliða rannsókn á hryðjuverkamálinu rannsakaði embætti héraðssaksóknara vopnalagabrot nokkurra einstaklinga. Mennirnir tveir sem voru í haldi um langt skeið vegna málsins og voru síðar ákærðir fyrir tilraun til hryðjuverka eða hlutdeild í því voru einnig ákærðir fyrir vopnalagabrot. Þó nokkur önnur meint vopnalagabrot komu hins vegar upp í tengslum við rannsóknina, m.a. í tengslum við föður ríkislögreglustjóra.

Ólafur Hauksson héraðssaksóknari segir þennan hluta málsins enn vera í rannsókn og að engin ákvörðun hafi enn verið tekin um ákæru eða hvort vísa beri því annað. Hann segir hins vegar líklegt að einhver hluti málanna eða jafnvel öll fari að lokum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sé það vegna þess að brot á vopnalögum heyri undir embættið.

Hann segir meðferð héraðssaksóknara eiga að klárast fljótlega og að þá skýrist framhaldið.

Í sambandi við mögulegt vanhæfi lögreglunnar til að rannsaka mál sem gæti tengst ríkislögreglustjóra segir Ólafur að þótt málefni lögreglunnar heyri undir embætti ríkislögreglustjóra, þá heyri rannsóknir og ákærur undir embætti ríkissaksóknara. Því séu lögreglustjórar sjálfstæðir frá ríkislögreglustjóra um allar ákvarðanir í tengslum við rannsókn og saksókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert