Áfram í varðhaldi fyrir manndrápstilraun í Seljahverfi

Lögreglan var beðin um að rannsaka málið frekar. Mynd úr …
Lögreglan var beðin um að rannsaka málið frekar. Mynd úr safni. mbl.is/Unnur Karen

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að framlengja gæsluvarðhald yfir karlmanni sem grunaður er um að hafa sparkað öðrum manni niður tröppur fyrir utan barinn Moe's í Seljahverfi.

Árás­in átti sér stað aðfaranótt laug­ar­dags­ins 29. októ­ber á liðnu ári, og hefur verið flokkuð af ákæruvaldi sem tilraun til manndráps.

Í málsatvikalýsingu héraðssaksóknara kemur fram að fyrir liggi þrjú bráðabirgðalæknisvottorð. Ljóst sé að brotaþoli hafi hlotið alvarlega áverka af árásinni og þurfi á endurhæfingu að halda.

Fram hefur komið að í mynd­skeiði úr ör­ygg­is­mynda­vél sjá­ist þegar ger­andi tek­ur til­hlaup og spark­ar af miklu afli í bak brotaþola, sem var á leið út af staðnum. Af mynd­skeiðinu verði ekki annað ráðið en að skýr ásetn­ing­ur hafi verið að baki verknaðinum.

Stórhættulegur verknaður

„Í ljósi aðstæðna var verknaður­inn stór­hættu­leg­ur og lækn­is­fræðileg gögn benda sam­kvæmt fram­an­sögðu til al­var­legs lík­ams­tjóns brotaþola,“ sagði í úrskurði Landsréttar á síðasta ári.

Áður hefur mbl.is greint frá því að maður­inn hafi upphaflega verið settur í önd­un­ar­vél. Síðar hafi hann verið tekinn úr henni, en þó þurft að fá teng­ingu í önd­un­ar­veg á háls­in­um.

Hann þurfi fulla umönn­un, geti ekki borðað eða kyngt og sé með nær­ing­arslöngu niður í maga. Þá sé hann með löm­un­ar­ein­kenni hægra meg­in en geti þó hreyft út­limi.

„Hann virðist ekki getað talað eða tjáð sig þrátt fyr­ir að vin­ir og vanda­menn hafi mikið reynt,“ sagði í atvikalýsingu þegar úrskurðað var um gæsluvarðhald á síðasta ári.

Óskaði eftir frekari rannsókn

Þann 13. desember var málið sent héraðssaksóknara til ákvörðunar um saksókn. Átta dögum síðar óskaði saksóknari eftir því að að lögregla rannsakaði málið frekar.

Svo sem „með því að reyna taka skýrslu af brotaþola, sem virðist byrjaður að geta tjáð sig, afla læknisfræðilegra gagna um hagi kærða, teikna upp og mynda anddyrið þar sem brotaþola var sparkað niður tröppurnar og reyna enn frekar að hafa uppi á tilteknu vitni sem virðist skv. myndbandsupptöku sjá vel umræddan atburð“, kemur fram í úrskurði Landsréttar, sem kveðinn var upp í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert