„Enginn pólitískur áróður í skólanum“

Guðrún Inga Sívertsen
Guðrún Inga Sívertsen Ljósmynd/mbl.is

„Það sem er á ferðinni þarna er ein glæra sem er algerlega tekin úr samhengi,“ segir Guðrún Inga Sívertsen, skólastjóri Verzlunarskóla Íslands um færslu sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins birti í gær á Facebook-síðu sinni.

Á mynd sem fylgdi færslunni mátti sjá glæru úr kennslustund í Verzlunarskólanum þar sem honum er stillt upp við hlið Adolfs Hitlers og Benítós Mússólínís. 

Sett fram til að kveikja umræður

Guðrún segir að myndin sé úr stjórnmálafræðitíma þar sem þjóðernisstefna var til umræðu og að glæran hafi verið sett fram til að kveikja umræður meðal nemenda um ólíkar birtingarmyndir þjóðernisstefnu. 

Verzlunarskóli Íslands.
Verzlunarskóli Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Guðrún kveðst hafa rætt við hlutaðeigandi kennara og standa á bak við kennarann í málinu. Hún telur málið ekki kalla á íhlutun af sinni hálfu.

„Mér þykir leiðinlegt að ein glæra skuli vera tekin úr samhengi og gerð að svona máli,“ segir Guðrún. „Auðvitað getum við sagt að glæran ein og sér sé klaufaleg en kennslustundin er fimmtíu mínútur og í þessu eins og mörgu öðru skiptir samhengið máli og í hvaða tilgangi eitthvað er sett fram.“

Myndin er gömul

Auk þess segir Guðrún að myndin sem birt var með færslu Sigmundar sé ekki frá því í vetur, hún gæti verið árs eða tveggja ára gömul. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er merkilegur stjórnmálamaður og ég tel að þegar þjóðernisstefna er til umfjöllunar er erfitt að horfa fram hjá nafni hans í stórum málum samtímans. Þessi eina glæra sem vísað er til er ekki að mínu viti í takt við þá umræðu sem átti sér stað í kennslustundinni um Sigmund Davíð og hans störf í íslenskum stjórnmálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina