Félagsfólk „tilbúið að leggja niður störf“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, telur félagsfólk í Eflingu reiðubúið að leggja niður störf til að knýja á um „réttmætar kjarabætur“. 

Samninganefnd verkalýðsfélagsins undirbýr nú verkfallsboðun eftir að Samtök atvinnulífsins höfnuðu tilboði nefndarinnar á fundi sem lauk fyrir skömmu.

Ekki er þó víst að það rætist úr verkfallsaðgerðunum en eins og áður hefur komið fram þarf félagsfólk að greiða atkvæði um verkfallsboðunina. Sólveig Anna er bjartsýn á að hún verði samþykkt.

„Ég held að svo sé, við auðvitað byggjum á samtölum við félagsfólk en við gerum meira en það. Við erum með góðar niðurstöður úr ítarlegri kjarakönnun sem að metþátttaka var í sem að sýnir fram á það með mjög skýrum hætti að félagsfólk Eflingar er tilbúið að leggja niður störf til að knýja á um réttmætar kjarabætur fyrir sig,“ segir Sólveig spurð hvort hún telji sig hafa bakland í félaginu fyrir verkfallsaðgerðum.

Aðspurð kvaðst Sólveig Anna ekki óttast að SA fari fram á verkbann.

„Það væri nú ansi mögnuð staða en ég auðvitað ætla ekki að útiloka nokkurn skapaðan hlut.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert