Heilaæxlið hvatinn til að setja í fimmta gír

Sóley Ósk Hafsteinsdóttir, eigandi Heimaskipulags, er á 27. ári og hefur ávallt lifað út frá því lífsviðhorfi að minna sé meira. Þetta viðhorf hefur gert henni og fjölskyldu hennar kleift að áorka meiru en margir jafnaldrar þeirra.

Sóley greindist með góðkynja heilaæxli fyrir nokkrum árum í fæðingarorlofi en sú uppgötvun varð eins konar hvati fyrir hana og fjölskylduna til að setja í fimmta gír. Byggðu þau í kjölfarið heilt hús. Einnig ákvað hún að fylgja drauminum og stofnaði skipulagsverslunina Heimaskipulag.

Sóley ræðir um þetta allt í Dagmálum í dag.

Lifa í draumi

„Sá sem skrifaði handritið að mínu lífi, hann var í góðu skapi. Af því að öll þessi litlu skref sem við höfum tekið hafa gert okkur kleift að gera það sem við erum að gera í dag. Sem er að lifa í pínu draumi,“ segir Sóley sem bendir á að þessi litlu skref hafi byrjað til að mynda í menntaskóla þar sem hún eyddi peningum ekki í nýjustu tísku eða skyndibita.

„Sumir áttu nýjustu úlpuna í framhaldsskóla og voru í flottustu skónum. Ég var ekki þar. En vann fyrir öllu og átti peninga fyrir því. En það var bara ekki markmiðið mitt. Að vera í tískufatnaði hverju sinni, af því að það er rándýrt. Að eiga alltaf það nýjasta í öllu og geta keyrt um á flottum bíl í framhaldsskóla,“ segir hún. 

„Þetta er aldrei neitun“

„Þetta er allt vani. Þetta er aldrei neitun. Af því að ég trúi því ekki að það sé betra líf að kaupa sér skyndibita í hádeginu,“ segir hún. 

Þrjú ár eru síðan Sóley greindist með heilaæxlið, eftir að hafa fengið flog, en þá kom í ljós að æxlið hafði verið til staðar að minnsta kosti frá því hún var 11 ára gömul. Sóley segir þó að greiningin hafi komið á fullkomlega réttum tíma og leggur áherslu á að hún sé á engan hátt neikvæð í hennar huga. 

„Eftir sex mánuði þá settum við í fimmta gír og við tókum ákvörðun um að selja og byggja húsið. Þannig að það var svona pínu hvatinn til þess,“ segir Sóley.

Viðtalið má horfa eða hlusta á í heild sinni hér:

mbl.is