30 milljónir í styrki til að vinna gegn fíkn

Fíknivandamál eru ekki ný af nálinni á Íslandi og hefur …
Fíknivandamál eru ekki ný af nálinni á Íslandi og hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að úthluta 30 milljónum til verkefna sem sporna gegn fíknisjúkdómum. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur úthlutað 30 milljónum króna í styrki til frjálsra félagasamtaka til verkefna sem vinna gegn fíknisjúkdómum. Fern félagasamtök hlutu styrki til sex nánar tilgreindra verkefna.

Stjórnarráðið greinir frá þessu.

SÁÁ og Rótin fengu stærstu styrkina

SÁÁ hlaut samtals 18,3 milljónir króna til tveggja verkefna. Þar af eru 8,3 milljónir veittar í verkefnið Batastuðningur jafningja en í því felst að þróa batastuðning jafningja innan eftirfylgdar ungmenna á göngudeild SÁÁ. 

Tíu milljónir eru veittar til að þróa svokallað foreldrafærninámskeið á landsvísu. Námskeiðinu er ætlað að hjálpa foreldrum og forráðamönnum að takast á við og sporna gegn vímuefnavanda ungmenna. 

Rótin, félag um velferð og lífsgæði kvenna, hlaut samtals 8,2 milljónir vegna tveggja verkefna. 4,2 milljónir voru veittar í heilbrigðisþjónustu fyrir jaðarsettar konur en sú þjónusta verður í boði í neyðarskýlinu Konukoti hálfan dag í viku.

Fjórar milljónir voru veittar vegna alþjóðlegrar ráðstefnu um stefnumótun í áfengis- og vímuefnamálum sem verður haldin hér á landi í byrjun október. 

Styrkja heilsueflingu og forvarnir

Samhjálp hlaut einnig tvær milljónir í styrk til að innleiða áfallamiðaða nálgun í meðferðarstarfi undir handleiðslu erlends sérfræðings. Innleiðingarferlið hefst á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti á næstu misserum.

Sorgarmiðstöðin hlaut lægsta styrkinn eða 1,5 milljónir til að stuðla að stuðningi við aðstandendur. Það verður gert með því að búa til fræðsluefni fyrir syrgjendur sem misst hafa ástvini sökum fíknisjúkdóma. 

Umræddir styrkir voru auglýstir til umsóknar í október í fyrra. Í auglýsingunni kom fram að tilgangurinn væri að styðja við verkefni á sviði heilsueflingar og forvarna sem vinna gegn fíknisjúkdómum í samfélaginu. 

mbl.is