Ekki víst að Vin verði lokað

Reykjavíkurborg tók við Vin fyrir um ári síðan.
Reykjavíkurborg tók við Vin fyrir um ári síðan.

Starfsemi Vinjar, dagseturs fyrir fólk með geðraskanir, er borgið út árið. Þetta var samþykkt á fundi velferðarráðs í dag. Ekki er víst hvort setrinu verði lokað.

„Mér finnst mikilvægt að það komi fram, í ljósi þess að fólk hefur tekið þessari óvissu mjög illa. Það er ekkert að fara að breytast akkurat núna og það hefur ekki verið tekin ákvörðun um neitt,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Borgarstjórn samþykkti í desember tillögu þess efnis að Vin yrði lagt niður til hagræðingar. Spurð hvort svo gæti farið að sú ákvörðun verði tekin til baka segir Heiða:

„Já. Tillagan var í raun send okkur til meðferðar. Hún er vísbending um að borgarstjórn sé ekki sátt við að þetta verði gert í óbreyttri mynd. En það verður ekki hlaupið í neitt án samráðs við notendur. Við ætlum að gefa okkur þetta ár til þess að skoða hvað þarf að gera.“ 

Engin upphæð á tillögunni

Engin upphæð hafi verið á tillögu borgarstjórnar og að fjármagnið til þess að reka Vin sé enn innan ramma velferðarráðs.

„Við viljum hins vegar gjarnan annað hvort að úrræðið nýtist fleirum eða skoða hvort við getum nýtt fjármagn sem fer í starfsemina betur. Það er í rauninni verkefni sem okkur var falið. Við munum vanda okkur við það og tryggja að allir þeir sem eru að nýta þessa þjónustu Vinjar fái ekki síðri þjónustu hvar sem henni er fyrir komið, ef það er niðurstaða hópsins að sú verði lausnin.“

Ekki útilokað að húsnæðið verði nýtt í annað

Vin er til húsa á Hverfisgötu. Spurð hvort til standi að færa starfsemina annað segir Heiða að ekkert sé ákveðið í þeim efnum, þótt sá möguleiki sé fyrir hendi. 

„Við ákváðum að skipa stýrihóp þar sem hagsmunaaðilar koma með tillögu að því hvernig við eigum að halda áfram með Vin. Annað hvort þá að efla úrræðið, færa það eða annað. Þetta er fyrst og fremst fagpólitísk ákvörðun frekar er pólitísk. Hópurinn fær tíma út mars til þess að koma með tillögu og síðan vinnum við með þá tillögu út árið og reynum að finna henni farsæla niðurstöðu hver sem hún verður.“

Heiða Björg Hilmisdóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert