Engin heildstæð sýn á söluna

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar segir að rannsókn Fjármálaeftirlitsins sé í raun ekki heildstæð rannsókn heldur stakar rannsóknir á atvikum sem kunna að hafa verið brot á lögum. 

Hún segir að rannsókn Fjármálaeftirlitsins annars vegar og Ríkisendurskoðunar hins vegar vera góðra gjalda verðar en ekki veita heildstæða sýn á það sem fram fór við söluna. Ljóst sé að enn séu forsendur fyrir sérstakri rannsóknarnefnd og að minni hlutinn muni áfram kalla eftir slíkri.

Veldur áhyggjum

„Auðvitað veldur það manni áhyggjum að túlka megi orð Íslandsbanka þannig, að segjast ætla að ganga að sátt í máli, þá er ekki hægt að skilja það öðruvísi en þeir vilji meina að eitthvað brotlegt hafi átt sér stað. Og þau þurfa að leita sátta vegna þessa,“ segir Kristrún í samtali við mbl.is.

Hún segir að líklega muni reynast erfitt að kalla eftir upplýsingum um rannsóknina hjá Fjármálaeftirlitinu fyrr en ferli hennar er lokið og sátt komin í málið. 

„Stærsti gallinn við þetta ferli er að við skulum ekki hafa farið í stóra heilstæða rannsókn á sölunni,“ segir hún. „Eftir tvo til þrá mánuði er komið ár síðan þetta mál kom upp.“

Erum að fá brot og brot

Kristrún segir að rannsóknarnefnd gæti tekið á viðskiptalegu hliðinni sem snýr að Fjármálaeftirlitinu, pólitísku ábyrgðina og ákvörðun ráðherra, framkvæmd Bankasýslunnar og allt þar á milli. „Í staðinn erum við að fá brot og brot inn og þessir aðilar [sem rannsaka söluna] eru ekki endilega að tala saman. Ég myndi segja að það væri helsti gallinn og er eitthvað sem við höfum gagnrýnt frá upphafi.“

„Ég efast ekki um að vel sé haldið utan um málin hjá Fjármálaeftirlitinu og Ríkisendurskoðun en fyrir okkur sem viljum sjá heildarmyndina og tengja punktana þá mun það ekki gerast fyrr en rannsóknarnefnd taki þetta fyrir.“

mbl.is