Enn unnið að hönnun þó þrjú ár séu frá snjóflóði

Aðkoman á hafnarsvæðinu á Flateyri var nöturleg eftir snjóflóðin í …
Aðkoman á hafnarsvæðinu á Flateyri var nöturleg eftir snjóflóðin í janúar 2020. mbl.is/RAX

Hönnun á endurbættum varnargörðum við Flateyri stendur enn yfir, þó að næstum þrjú ár séu liðin frá því tilkynnt var um hönnun að frekari vörnum vegna snjóflóða á Flateyri.

Var það gert í kjölfar snjóflóðs sem fór yfir varnargarð þorpsins árið 2020 og meðal annars inn um glugga íbúðarhúss. Þar grófst fjórtán ára gömul stúlka undir snjófargi og var þar þangað til björgunarsveitarfólk bjargaði henni um fjörutíu mínútum síðar.

Flóð sem átti ekki að geta gerst, eins og þáverandi bæjarstjóri, Guðmundur Gunnarsson, komst að orði.

Flóðið féll einnig á höfnina og eyðilagði þar bryggjur og báta.

Hjörleifur Finnsson, verkefnisstjóri á Flateyri, segir í samtali við mbl.is að hönnunin sé nú á lokametrunum og að framkvæmdir eigi að geta hafist í sumar.

Mikið fannfergi fylgdi snjóflóðinu árið 2020.
Mikið fannfergi fylgdi snjóflóðinu árið 2020. mbl.is/RAX

Tilkynnt 2020

Í mars 2020 var tilkynnt að hugað væri að frekari snjóflóðavörnum á Flateyri en í nóvember sama ár virtist ekki mikið hafa áunnist.

Þá hafði ekki verið ákveðið hvenær framkvæmdir við endurbætur á snjóflóðagörðum fyrir ofan Flateyri myndu hefjast og var enn unnið að mati á snjóflóðinu sem féll þar fyrr á árinu.

Allstórt snjóflóð féll við Flateyri í gær en það stöðvaðist 40 metra ofan við veg að bænum. Í tilkynningu Veðurstofunnar vegna snjóflóðsins sagði að það hefði komið á óvart.

Framkvæmdir gætu hafist í sumar

Að sögn Hjörleifs er hönnun endurbótanna á snjóflóðavarnargörðunum búin að standa yfir síðan árið 2020. Hann bendir þó á að hún sé nú lokastigi og ætti að klárast í vor. Góðar líkur séu á að framkvæmdir hefjist í sumar. 

„Mér skilst samkvæmt kynningu sem var í nóvember að sú hönnun sé á lokametrunum. Auðvitað óskar maður þess að þetta hefði gengið hraðar. Auðvitað hefur þetta aðeins tafist en maður getur ekki sagt að það hafi verið út af einhverjum skrítnum ástæðum.“

Spurður hvað valdi töfum segir Hjörleifur að fræðilegar og tæknilegar ástæður séu fyrir því. 

„Það er búið að vera að tölvukeyra samband af keilum, breyttum görðum og jafnvel nýjum garði neðst til að verja höfnina,“ segir hann um hina nýju hönnun.

Hann bendir á að þó að hönnun verði mögulega komin í hús fljótlega þurfi fyrst að gera könnun á umhverfismati. „Það er ekki ólíklegt að þetta þurfi ekki að fara í umhverfismat því það eru mannvirki þarna fyrir og þá ætti þetta að ganga hratt í gegn.“

Svona var umhorfs fyrir um þremur árum á Flateyri.
Svona var umhorfs fyrir um þremur árum á Flateyri. mbl.is/Hallur Már

Búið að gera ýmsar úrbætur 

Hann tekur fram að fólk hafi ekki setið aðgerðalaust síðan snjóflóðið féll í janúar 2020 og bendir á að búið sé að vinna ýmsar úrbætur í kringum varnargarðana. 

„Það eru ákveðnir hlutar af nýjum vörnum komnar upp. Það eru komnir nýir snjódýptarmælar upp í Skollahvilft og kominn radar sem nam þetta flóð í gær. Uppi á Eyrarfjalli eru komnar snjósöfnunargrindur. Þær eru tilraunaverkefni en við vonum að það muni koma í veg fyrir snjósöfnun.“

Að auki nefnir hann að vestan við varnargarðanna við Bæjargil hafi mikið efni verið tekið úr flóðrásinni. Við það hafi varnargarðarnir hækkað að jafnaði um þrjá metra þeim megin. 

Reiknar með ró á Flateyri

Hjörleifur segir að hann reikni með að allt sé með kyrrum kjörum meðal bæjarbúa þrátt fyrir snjóflóðið í gær og að þeir upplifi sig örugga.

Ekki sé óeðlilegt að svona flóð falli á þessum tíma.

„Þetta er ekki nálægt því að vera jafn stórt flóð og árið 2020.“

mbl.is

Bloggað um fréttina