Fólk vill ekki eiga á hættu að vera sótt til saka

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir mönnun í verkfalli …
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir mönnun í verkfalli víða betri en í daglegu starfi. mbl.is/Sigurður Bogi

Á hinum ýmsu heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum víða um land er gert ráð fyrir betri mönnun hjúkrunarfræðinga í verkfalli en er í daglegri starfsemi, svo mikill er mönnunarvandinn á sumum stofnunum. En komi til verkfalls þarf alltaf ákveðna lágmarksmönnun. Þetta segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Hún bendir jafnframt á að þannig hafi staðan verið árum saman. Engin viðmið séu til um það hve langt megi ganga varðandi fækkun í starfsmannahópnum.

Síðustu mánuði hafa ítrekað borist fréttir af uppsögnum hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku Landspítalans þar sem ástandið hefur verið sérstaklega slæmt og álagið mikið. Samhliða fækkun starfsfólks eykst álagið enn frekar á þá sem eftir standa.

„Það vantar alltaf hér vel skilgreind mönnunarviðmið. Það eru til mönnunarmódel fyrir hverja og eina starfseiningu sem er ekki einu sinni hægt að manna upp í. Það eina sem við höfum eru öryggislistarnir sem eru endurskoðaðir á hverju ári og lúta að því hvernig skuli manna þegar til verkfalls kemur. Þessir öryggislistar fela í sér betri mönnun en er í daglegri starfsemi,“ segir Guðbjörg í samtali við mbl.is.

Fólk hugsar sig tvisvar um

Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga gerði í haust meðal sinna félagsmanna er mikill meirihluti hjúkrunarfærðinga ánægður með starfið sitt og vill starfa við hjúkrun. En á sama tíma hefur mikill meirihluti íhugað það alvarlega að hætta í starfi og að sögn Guðbjargar er það vegna starfsumhverfisins, álagsins og launakjara. „Það er ekki það að fólk vilji ekki starfa við hjúkrun. Það vill það en er ekki gert það kleift.“

Gildi fólks séu að breytast, fólk vilji sinna fjölskyldu og vinum og eiga sér líf fyrir utan vinnuna. „Það vill heldur ekki eiga yfir höfði sér að það verði sótt til saka í starfi vegna brots sem rekja má til röð atvika sem eru kerfislæg. Þetta er kjarninn. Þegar staðan er svona þá hugsaðurðu þig tvisvar um,“ segir Guðbjörg.

„Þetta er það sem fólk segir; það er starfsumhverfið, álag í starfi og launin eru ekki í samræmi við þessa miklu ábyrgð og álag í starfi,“ bætir hún við.

Guðbjörg segir mikið talað um mikilvægi þess að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar, en það sé mjög erfitt eins og staðan sé víða.

„Það sér það hvert mannsbarn að gæði og öryggi þjónustunnar er mjög erfitt að tryggja í þeim aðstæðum sem við erum að fá fréttir og lýsingar á og ég hef frá hjúkrunarfræðingum. Og það meðal annars leiðir til þessa flótta úr heilbrigðiskerfinu.“

Snýst ekki bara um að fjölga hjúkrunarrýmum

Hjúkrunarfræðingar hafa ekki samið um laun sín síðan árið 2011, en hafa síðan þá hefur gerðardómur úrskurðað í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga í tvígang. Annars vegar árið 2015 og hins vegar 2020. Sá gerðardómur rennur út þann 31. mars næstkomandi.

„Þetta er grafalvarlegt. Það eru bara tæpir þrír mánuðir í að gerðardómur renni út og halda yfirvöld að það muni auðvelda stöðuna? Nei það gerir það ekki, það er bara hver dagur sem tikkar og allir vissu af þessu fyrirfram. Dagsetninginn hefur aldrei breyst.

Það er nóg búið að gera af skýrslum og úttektum í millitíðinni og þær ber allar að sama brunni. Það þarf bara að hafa kjark til að taka þessar ákvarðanir. Það þarf að halda í mannauðinn. Þetta snýst allt um þennan mannauð, ekki bara fjölga hjúkrunarheimilum, hver á að vinna þarna?“ spyr Guðbjörg.

Hún segir að enn sé verið að tala og nefndir að vinna, en það liggi fyrir tvær skýrslur um mönnun hjúkrunarfræðinga sem gerðar voru í heilbrigðisráðherratíð Svandísar Svavarsdóttur.

„Allar þessar niðurstöður, það er alveg sama hvernig þetta er skoðað, þær ber allar að sama brunni. Það er að það þurfi að launamiða við álag, menntun og reynslu í starfi og það þarf að snarbæta starfsumhverfið.“

Langtímaveikindi aukast

Guðbjörg segir engar stórtækar breytingar hafa orðið í þessum efnum frá árinu 2015, en álagið hafi bara aukist.

„Við erum með stóraukinn fjölda sem er að nýta sér styrktarsjóð félagsins vegna langvarandi veikinda og það eru margar ástæður fyrir því.“

Guðbjörg bendir á að fólk sækist ekki eftir greiðslum úr sjúkrasjóði félagsins fyrr en eftir að það er búið með veikindarétt á sínum vinnustað, jafnvel ekki fyrr en eftir heilt ár í veikindaleyfi.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum, þar sem vinna tæplega 1.500 hjúkrunarfræðingar, þar af 633 í fullu starfi, jukust langtímaveikindi töluvert á árinu 2021. En er þá átt við samfelld veikindi í tvo mánuði eða meira. Þegar mest var í lok ásins fór hlutfallið upp í 3,8 prósent hjúkrunafræðinga á spítalanum. Á fyrri hluta árs 2022 dró úr langtímaveikindum en þau fóru aftur að aukast um mitt það ár og í lok síðasta árs var hlutfallið 2,7 prósent.

mbl.is