Framkoma í garð Ólafar innanfélagsmál Eflingar

Fyrir aftan Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, má sjá Ólöfu …
Fyrir aftan Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, má sjá Ólöfu Helgu Ad­olfs­dótt­ur, rit­ara Efl­ing­ar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, segir framkoma stjórnar Eflingar í garð Ólafar Helgu Adolfsdóttur, ritara Eflingar, vera innanfélagsmál Eflingar.

Ólöf greindi frá því í viðtali við mbl.is í gær að þrátt fyrir að eiga sæti í samninganefnd Eflingar, samkvæmt lögum Eflingar, sem ritari stjórnar, hefur Ólöf ekki fengið að sitja á fundum eða taka þátt í vinnu nefndarinnar. 

Í 18. gr. laga Eflingar sem varðar samninganefnd segir:  

Samninganefnd skal vera starfandi í félaginu. Nefndina skipar stjórn félagsins en hún skal að öðru leyti kosin af trúnaðarráði. 

Brottvikning möguleg fyrir alvarleg brot

Spurð hvort það hafi ekki afleiðingar að brjóta lög félagsins segir Lára að slíkt fari eftir félagslögum, en landslög komi hér ekki til skoðunar. Oft sé heimild í félagslögum að beita áminningum í slíkum tilvikum. Brottvikning er möguleg ef brot er verulegt.  

Í 8. gr. laga Eflingar sem varðar skyldur og réttindi segir: 

Hafi félagsmaður brotið lög, reglugerðir eða fundasamþykktir félagsins, bakað því tjón eða unnið félaginu ógagn með öðrum hætti er trúnaðarráði félagsins heimilt að veita viðkomandi félagsmanni áminningu eða víkja honum úr félaginu ef sakir eru miklar eða brot er ítrekað sem áminnt hefur verið fyrir áður.

Lára bendir á að skv. 3. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur hafi félögin frelsi um sín innri mál, því sé erfitt fyrir utanaðkomandi að grípa inn í innri mál félagsins. 

„Því er almennur skilningur sá að félögin setji sínar eigin reglur… Samþykktir verða samt sem áður að uppfylla ákveðin lágmarksskilyrði, meðal annars að tilgangur félagsins sé að gera kjarasamninga og gæta hagsmuna félagsmanna.“ 

Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti.
Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti. Mynd/Af vef ll3.is

Getur ekki farið með málið fyrir félagsdóm

Spurð að því hvort Ólöf geti farið með málið fyrir Félagsdóm svarar Lára því að svo sé ekki.

Félagsdómur sé sérdómstóll sem dæmi einungis í málum er varða brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og túlkun og brot á kjarasamningum.

Engin ákvæði eru í lögunum um verkaskiptingu einstakra samninganefnda innbyrðis.

Telji Ólöf rétt hafa verið á sér brotinn á hún þess kost að fara með slíkt mál fyrir almenna dómstóla.

Verkföll neyðarrástöfun 

Samninganefnd Eflingar undirbýr nú verkfallsboðun og segir Lára að verkföll séu í langflestum tilfellum síðasta úrræðið í kjaradeilum.  

„Verkföll eru ekki boðuð eða viðhöfð án tilefnis. Þau er neyðarráðstöfun þegar samningaleiðir hafa verið fullreyndar.“ 

Hún nefnir að alþjóðasamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar kveði á um rétt til verkfalla og því líta megi á úrræðið sem hluta mannréttinda hjá lýðfrjálsum ríkjum.  

Verkbönnum sjaldan beitt

Í samtali við mbl.is í gær sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), að ekki væri hægt að útiloka að gripið yrði til verkbanns.  

Um er að ræða aðgerð sem atvinnurekendur geta gripið til með sama hætti og verkalýðsfélög geta gripið til verkfalls.  

Með verkbanni er átt við sambærilega aðgerð og verkföll eru, það er að atvinnurekendur stöðvi vinnu hjá launafólki í þeim tilgangi að ná fram tilteknu sameiginlegu markmiði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert