Hélt konu niðri og braut gegn henni

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært karlmann fyrir nauðgun en hann er sakaður um að hafa í heimildarleysi farið inn þar sem kona lá sofandi og beitt hana ólögmætri nauðung og  kynferðislegu ofbeldi.

Í ákærunni kemur fram að maðurinn hafi afklætt sig og farið upp í rúm þar sem konan var sofandi og lagst ofan á hana og haldið henni fastri. Því næst hafi hann kysst hana um allan líkamann, þuklað á henni, meðal annars á kynfærum og brjósti og sett fingur endurtekið inn í löggöng hennar.

Þá reyndi maðurinn jafnframt að eiga við hana kynferðismök gegn vilja hennar. Kemur fram að konan hafi sagt manninum að hún vildi þetta ekki og barist á móti honum, meðal annars með því að hafa reynt að ýta honum af sér og klemma lærin.

Konan komst að lokum undan manninum og flúði úr herberginu.

Farið er fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar, en konan fer auk þess fram á að fá greiddar 5 milljónir í miskabætur auk lögmannskostnaðar. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag.

mbl.is