Hér gildi „íslensk lög en ekki þýsk útrunnin lög“

Margrét Friðriksdóttir heldur úti vefsíðunni frettin.is.
Margrét Friðriksdóttir heldur úti vefsíðunni frettin.is. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Friðriksdóttur fær ekki lögákveðnar bætur fyrir að hafa verið vísað úr flugvél Icelandair á leið til Munchen við brottför síðasta haust. Samgöngustofa birti úrskurð vegna kvörtunar Margrétar í dag og féllst þar á að flugstjóri vélarinnar hafa verið að sinna sínum lögbundnu skyldum með brottvísun hennar. 

Í úrskurðinum er málavöxtum í loftfarinu lýst en eins og mbl.is fjallaði um í september á liðnu ári var Margrét á leið til hernuminna svæða í Úkraínu en var vísað frá borði í Keflavík. Flugstjórinn taldi Margréti til þess fallna að valda ónæði um borð í vélinni og jafnvel stefna öryggi farþega í hættu. 

Taska og grímuskylda ullu ósætti

Ágreiningurinn snerist meðal annars um tösku sem Margrét kom með um borð og vildi geyma í handfarangri og taldi sig eiga rétt á því. Í frásögn Margrétar furðar hún sig einnig á því að hún hafi verið beðin um að setja upp grímu vegna þýskra lagaboða sem hún taldi útrunnin.

„Þar að auki vísar flugfélagið þarna í þýsk sóttvarnarlög í Keflavík sem bæði voru fallin úr gildi í Þýskalandi og þar að auki þá virðist flugfélagið ekki átta sig á að á Íslandi gilda íslensk lög en ekki þýsk útrunnin lög,“ segir í bréfi Margrétar til Samgöngustofu. 

Efast ekki um heilindi flugstjórans

Icelandair og flugstjórinn vísuðu þýskra sóttvarnalaga og reglugerðar sem var framlengd til 1. október síðastliðinn. 

Samgöngustofa taldi ekkert hafa komið fram í málinu sem gæfi tilefni til þess að draga réttmæti þeirrar ákvörðunar flugstjórans að vísa Margréti úr fluginu í efa. Því bendi ekkert til þess að ákvörðunin hafi verið tekin á forsendum öðrum en þeim að tryggja öryggi loftfarsins. 

Því fær Margrét engar bætur að svo stöddu en hún getur lagt niðurstöðu úrskurðarins fyrir dómstóla ef hún sættir sig ekki við niðurstöðu stofnunarinnar. 

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að Margrét gæti áfrýjað úrskurðinum til innviðaráðuneytisins. Hið rétta er að samkvæmt uppfærðum loftferðalögum er ekki hægt að áfrýja til ráðuneytisins, heldur verður að leggja ágreining eftir úrskurð fyrir dómstóla.

mbl.is