Sóttu 82 tré til íbúa á Kársnesi

Hrafn Helga­son, Tóm­as Berg Dags­son, Brynj­ar Ing­ólfs­son og Kristján Karl …
Hrafn Helga­son, Tóm­as Berg Dags­son, Brynj­ar Ing­ólfs­son og Kristján Karl Berg­mann Val­týs­son. mbl.is/Óttar

„Það var stundum smá kalt en við klæddum okkur vel,“ segja dreng­irn­ir ungu sem sóttu jóla­tré til íbúa á Kársnesi í Kópavogi gegn greiðslu um liðna helgi.

Þeir Hrafn Helga­son, Tóm­as Berg Dags­son, Brynj­ar Ing­ólfs­son og Kristján Karl Berg­mann Val­týs­son eru nem­end­ur í 7. bekk Kárs­nesskóla. Þeir segja for­eldra sína hafa fengið þessa hug­mynd að fjár­öfl­un fyr­ir kom­andi skóla­ferðalag að Reykj­um í Hrútaf­irði.

„Við sóttum 82 tré um helgina og erum hættir að taka við pöntunum. Það var svolítið erfitt að fara með trén á milli í snjósköflunum en þau voru af öllum stærðum og gerðum. Stærstu trén voru að minnsta kosti tveir eða þrír metrar.

Drengirnir við störf um helgina.
Drengirnir við störf um helgina. mbl.is/Óttar

Strákarnir hafa þekkst lengi en auk þess að vera bekkjarfélagar æfa þeir fótbolta saman. Inga Sig­urðardótt­ir, móðir Brynj­ars, segir að þeir hafi náð að safna fyrir ferðinni og eiga meira að segja smáræði umfram sem þeir ætla að nota til að fá sér pitsu og fara í bíó.

„Þetta var mjög gaman, það kom pínu á óvart. Kannski gerum við þetta aftur á næsta ári,“ segja strákarnir hressir í bragði.

mbl.is