Þingfesta mál sem tengist hvarfi Friðfinns

Friðfinnur Freyr Kristinsson.
Friðfinnur Freyr Kristinsson. Ljósmynd/Lögreglan

Þingfesting verður í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun í máli sem tengist hvarfi Friðfinns Freys Kristinssonar.

Hann fór frá Kugguvogi í Vogabyggð fimmtudaginn 10. nóvember og upphófst umfangsmikil leit að honum í framhaldinu. Síðar kom í ljós, miðað við myndbönd sem lögreglan tók saman, að Friðfinnur Freyr virtist hafa stungið sér til sunds og synt á haf út.

Lög um horfna menn

Garðar Guðmundur Gíslason lögmaður, sem annast málið fyrir hönd föður Friðfinns, segir málið í héraðsdómi vera rekið á grundvelli sérstakra laga um horfna menn. Hægt verður að fá úrlausn dóms um hvort fara megi með bú Friðfinns eins og hann sé látinn.

„Þetta eru mjög fátíð mál, sem betur fer,“ segir Garðar Guðmundur, spurður út í mál sem þessi.

Ströng lagaskilyrði 

Hann segir mjög ströng skilyrði vera í lögum fyrir því að það megi úrskurða menn látna ef þeir hverfa og þurfa að líða að minnsta kosti þrjú ár þangað til það er hægt. Úrræðið í málinu sem verður rekið í héraðsdómi á morgun gerir aftur á móti ráð fyrir því að það megi stíga þetta milliskref.

Ef þú upplifir vanlíðan eða sjálfsvíghugsanir eða hefur áhyggjur af einhverjum í kringum þig getur þú leitað til Píeta-samtakanna í síma 552 2218, Hjálparsíma Rauða krossins 1717 (sem er opinn allan sólarhringinn), eða bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans í síma 543 4050.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert