Vísað á dyr ef hún hyggst mæta á fundina

Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar.
Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er í raun rosalega lítið sem ég get gert í dag af því trúnaðarráðið er í rauninni að mestu leyti handvalið af Sólveigu Önnu,“ segir Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, spurð hvort hún ætli að gera eitthvað til að takast á við framkomu stjórnar Eflingar í hennar garð.

Ólöf greindi frá því í gær að þrátt fyr­ir að eiga sæti í samn­inga­nefnd Efl­ing­ar, sam­kvæmt lög­um Efl­ing­ar, sem rit­ari stjórn­ar, hef­ur Ólöf ekki fengið að sitja á fund­um eða taka þátt í vinnu nefnd­ar­inn­ar. 

Þá segir einnig í lögum Eflingar að trúnaðarráð félagsins fari með lagabrot og geti veitt áminningu eða vikið félagsmanni úr félaginu „ef sak­ir eru mikl­ar eða brot er ít­rekað sem áminnt hef­ur verið fyr­ir áður“.

Trúnaðarráðið skipar stjórn félagsins ásamt 115 fulltrúum félagsmanna.

„Hún [Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar] náttúrlega hefur fólk þar sem kýs með henni,“ segir Ólöf og bætir við að það sé því fátt sem hún geti gert í stöðunni annað en að mæta á þá fundi sem hún viti af. 

Ólöf segir að þegar hún hefur haft upplýsingar um hvar og hvenær fundir samninganefndarinnar séu og hafi ætlað að vera viðstödd þá, þá hafi henni verið vísað á dyr. Hún er þó enn boðuð á fundi stjórnar Eflingar.

Erfitt að sinna hlutverkinu

Spurð hvernig það sé að starfa í stjórninni, þegar er komið sé svona fram við hana, segir Ólöf það vera erfitt. 

„Þetta er leiðinlegt. Mitt hlutverk er nokkuð skýrt. Ég á sæti í stjórninni,“ segir hún og bætir við að hún reyni að sinna sínu hlutverki eftir bestu getu. 

„Það er rosalega erfitt þegar formaður félagsins – sem á auðvitað að standa vörð um réttindi, ekki bara þeirra sem henni líkar vel við, heldur réttindi allra félagsmanna – að hún sjálf sé að brjóta lög félagsmanna sem að við skrifum og við samþykkjum til þess að halda einum félagsmanni utan við sitt hlutverk.“

Áttu þér bakland innan Eflingar?

„Ég hef stuðning en kannski ekki í þeim ráðum og nefndum sem hún [Sólveig Anna] hefur fengið að handvelja í.“

mbl.is