Andlát: Sieglinde Elisabeth Kahmann Björnsson

Sieglinde Elisabeth Kahmann Björnsson.
Sieglinde Elisabeth Kahmann Björnsson.

Sieglinde Elisabeth Kahmann Björnsson óperusöngkona lést 9. janúar síðastliðinn, 91 árs að aldri.

Sieglinde fæddist 28. nóvember 1931 í Dardesheim í Saxen-Anhalt í Þýskalandi, sem eftir síðari heimsstyrjöldina varð hluti af A-Þýskalandi. Foreldrar hennar voru Gertrud Schluter húsmóðir og Alfred Kahmann múrarameistari.

Sieglinde lauk grunnskólaprófi í Þýskalandi. Hún hafði mikinn áhuga á tónlist og vildi læra til söngs. Ráðamenn í þáverandi A-Þýskalandi höfðu aðrar hugmyndir og var henni skipað að vinna í verksmiðju. Hún flúði því sæluríkið 16 ára gömul og skreið yfir landamærin að nóttu til ásamt frænda sínum til V-Þýskalands. Henni tókst að komast til Stuttgart og þar hóf hún nám við Tónlistarháskólann þar í borg og lauk námi árið 1956.

Strax að námi loknu var hún ráðin að óperunni í Stuttgart, síðar við óperuhúsin í Zürich, Kassel, Graz og Gärtnerplatz í München. Auk fastráðningar við áðurnefnd óperuhús söng hún víða sem gestur við önnur óperuhús. Sieglinde flutti til Íslands ásamt eftirlifandi eiginmanni sínum, Sigurði Björnssyni óperusöngvara, árið 1977 þegar hann tók við stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Hún hóf strax kennslu við Söngskólann og síðar Tónlistarskólann í Reykjavík. Auk þess kenndi hún við tónlistarskólana í Garðabæ og Reykjanesbæ. Sieglinde tók þátt í óperusýningum við Þjóðleikhúsið og Íslensku óperuna og kom fram á tónleikum við ýmis tækifæri. Sieglinde og Sigurður voru einsöngvarar með Karlakór Reykjavíkur og fóru m.a. til Kína árið 1979. Þau tóku einnig þátt í tónleikaferðum til Japans, Hong Kong og Taívans árið 1990. Þau ákváðu bæði að hætta að syngja eftir síðustu sýningu á Kátu ekkjunni hér heima árið 1997.

Börn þeirra hjóna eru tvö: Daníel, arkitekt, býr í Berlín, og Guðfinna, leiðbeinandi, býr í Svíþjóð. Barnabörnin eru þrjú.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert