„Verður ekki gert án vilja okkar“

Andri Steinn Hilmarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs, ræddi við …
Andri Steinn Hilmarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs, ræddi við mbl.is um fyrirhugað iðnaðarsvæði.

Garðabær og Kópavogur deila um staðsetningu plássfreks iðnaðarsvæðis, sem Garðabær hyggur á að reisa í útjaðri bæjarins, á Rjúpnahæð rétt við lóðarmörkin.

„Þetta dúkkar upp í bakgarði okkar Kópavogsbúa. Þarna er ein lengsta gata bæjarins, Austurkór, sem er 30 kílómetra gata. Það er í miðju íbúahverfi sem þeir hyggja á að tengja þetta atvinnuhverfi í gegn,“ segir Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Kópavogsbæjar.

Svæðið tilheyrir græna treflinum svokallaða, sem tengir saman grænu svæði höfuðborgarsvæðisins og er vinsælt til útivistar. Breytinguna vill Garðabær gera meðal annars til þess að greiða fyrir borgarlínu og stuðla að blandaðri þéttri byggð innan bæjarins.

Atvinnusvæðið rís rétt við lóðarmörk Kópavogs og Garðabæjar.
Atvinnusvæðið rís rétt við lóðarmörk Kópavogs og Garðabæjar. Kort/Map.is

„Skjóta henni í okkar íbúabyggð“

„Þetta verður ekki gert án vilja okkar og sá vilji er ekki fyrir hendi. Mér finnst skjóta skökku við að þeir ætli að losa sig við starfsemi sem þeir segja að eigi ekki heima innan íbúabyggðar. Og skjóta henni við okkar íbúabyggð, nánast í görðum fólks,“ segir Andri.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, hefur komið athugasemdum á framfæri við bæjaryfirvöld í Garðabæ. Tillagan er til samþykktar í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins og þurfa þar öll sveitarfélög, þar á meðal Kópavogur, að vera samþykk breytingunni.

„Fljótlega kemur formleg afgreiðsla. Ég hef ekki trú á öðru en að okkur takist að leysa þetta farsællaga með Garðbæingum,“ segir Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert