„Verkföll eru alltaf neyðarúrræði“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bindur vonir við að Samtök atvinnulífsins og Efling nái brátt kjarasamningum.

„Það er auðvitað áhyggjuefni að ekki hafi náðst að semja milli Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Það virðist utan frá séð að hnúturinn sé enn þá ansi harður,“ segir Katrín.

Efling undirbýr nú verkfallsboðun. Á meðal félagsmanna eru starfsfólk hjúkrunarheimila, hótela og veitingahúsa, ræstingafólk og starfsfólk ýmissa stofnana, ríkis og borgar.

„Ég auðvitað vona að það finnist einhverjar lausnir, ég efa ekki að aðilar séu tilbúnir til þess að hugsa allar mögulegar lausnir í þessum efnum. En það er verulegt áhyggjuefni hvað þessi hnútur virðist harður akkúrat núna,“ segir Katrín.

Spurð hvort verkfall muni ekki hafa slæm áhrif á grunnþjónustu stjórnvalda segir hún:

„Verkföll eru alltaf neyðarúrræði og öll verkföll hafa áhrif á fólk, þannig er það.“

Katrín Jakobsdóttir boðaði samningsaðila á fund sinn í kjaraviðræðunum í desember og kynnti þar aðgerðir stjórnvalda, svo sem í húsnæðismálum og barnabótakerfinu.

„Stjórnvöld kynntu þær aðgerðir þegar samningar lágu fyrir, við meirihluta launafólks á almenna markaðnum. Það eru sömuleiðis aðgerðir sem opinberi vinnumarkaðurinn er meðvitaður um eftir það samtal sem hefur átt sér stað á vettvangi Þjóðhagsráðs allt síðastliðið ár. Það liggur fyrir og þær aðgerðir skipta auðvitað máli fyrir Eflingarfólk eins og aðra,“ segir Katrín.

Ekki rétt að miða við búsetu

– Hvað finnst þér um kröfu Eflingar um ólík kjör eftir búsetu? „Almennt finnst mér að stjórnvöld eigi ekki endilega að hafa skoðun á innihaldi krafna, þegar menn sitja við samningaborðið. En ég myndi telja að við værum komin út í verulegar ógöngur ef kjarasamningar ættu að miðast við búsetu. Einfaldlega vegna þess að aðstæður eru gríðarlega mismunandi eftir landshlutum.“

Hægt sé að ræða flutningskostnað, samgöngukostnað, húshitunarkostnað og fleira sem er ólíkt eftir landshlutum. Stjórnvöld séu með ákveðin tæki til þess að að bæta kjör milli landshluta, til dæmis með framboði á hagkvæmu leiguhúsnæði í samstarfi við verkalýðshreyfinguna.

„Það er auðvitað samningsaðila að ná saman. Það er mín von að einhverjar lausnir finnist.“

Stjórn Eflingar mun funda í dag klukkan 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert