Yfir milljarði úthlutað til aukins samstarfs

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Arnþór

Yfir milljarði króna hefur verið úthlutað til aukins samstarfs háskóla með það að markmiði að auka gæði námsins og samkeppnishæfni skólanna.

Hugmyndin var kynnt í haust og brugðust allir sjö háskólarnir við ásamt 37 öðrum samstarfsaðilum, að því er kemur fram í tilkynningu.

48 umsóknir um styrki 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, annaðist úthlutunina. 48 umsóknir bárust og sótt var um styrki fyrir samtals 2,8 milljarða króna.

Fram kemur í tilkynningu að upphaflega hafi staðið til að úthluta allt að milljarði króna til samstarfsins en vegna gæða umsóknanna og mats á líklegum árangri þeirra var ákveðið að úthluta tæplega 1,2 milljörðum.

Verkefnið er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum í gegnum samstarfið verður fjármögnun á háskólastigi gagnsærri en áður.

Krafar leystir úr læðingi

„Um leið og hugmyndin var kynnt fór af stað mikið samtal á milli allra háskólanna sem skilaði sér ekki einungis í miklum fjölda umsókna heldur eru gæði verkefnanna slík að ég trúi því að þau geti haft mikil og jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Umsóknirnar sýna að með [verkefninu] Samstarfi háskóla erum að leysa úr læðingi krafta og hugmyndir sem hafa verið í gerjun um langt árabil en geta nú loks orðið að veruleika,“ segir Áslaug Arna í tilkynningunni.

Ráðherra fagnar því að skólarnir eigi nú mikilvægt frumkvæði að því að koma á fót spennandi námsbrautum sem mæta þörfum nýrra tíma.

„Fjölmargar nýjar námsbrautir verða settar á laggir, klínískt heilbrigðisnám verður eflt verulega, aukin áhersla verður á hinar svokölluðu STEAM greinar, íslenskunám verður eflt og svo nefni ég að skólarnir munu stórauka fjarnám sem á að nýtast fólki um allt land,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert