Eigið fé flokka frá -35 milljónum í 1,2 milljarða

Samtals vörðu stjórnmálaflokkarnir 740 milljónum í kosningabaráttuna til Alþingis árið …
Samtals vörðu stjórnmálaflokkarnir 740 milljónum í kosningabaráttuna til Alþingis árið 2021. Fjárhagsstaða flokkanna er mjög mismunandi og eru tveir flokkar með neikvætt eigið fé meðan Sjálfstæðisflokkurinn er með eigið fé upp á 1,2 milljarða. mbl.is/Hari

Kosningar og prófkjör kostuðu stóru stjórnmálaflokkana samtals um 740 milljónir árið 2021. Framsóknarflokkurinn og Viðreisn voru báðir með neikvætt eigið fé upp á tugi milljóna í lok ársins, en á sama tíma var Sjálfstæðisflokkurinn með jákvætt eigið fé upp á 1,25 milljarða. Sá flokkur sem hafði næst mest eigið fé er Samfylkingin, en það var metið á 151 milljón. Ef horft er framhjá einskiptiliðum eins og eignasölu voru allir flokkar reknir með tapi kosningaárið 2021 og flestir eru með uppsafnað tap fyrir árin 2020 og 2021.

Þetta er meðal þess sem má sjá í ársreikningum stjórnmálaflokka sem hefur verið skilað inn og birtir á vef Ríkisendurskoðunar. Í gær voru reikningar Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar birtir og hafa þá reikningar allra flokka nema Pírata verið birtir á vef stofnunarinnar. Hins vegar hafa Píratar þegar birt reikninginn á eigin vef og hefur honum verið skilað inn þó að Ríkisendurskoðun hafi ekki enn lagt blessun sína yfir hann.

Rekstrartap hjá öllum flokkum á kosningaári

Allir flokkarnir utan Sjálfstæðisflokksins voru reknir með tapi á árinu 2021, en það ár fóru fram kosningar til Alþingis. Ekki er óalgengt að stjórnmálaflokkar séu reknir með tapi á kosningaári, en nái svo að safna upp einhverjum afgangi önnur ár, þó auðvitað séu undantekningar á því. Það sem gerir rekstrarár Sjálfstæðisflokksins nokkuð ófrábrugðið öðrum flokkum er að árið 2021 er að þá eru skráðar tekjur upp á um 340 milljónir vegna sölu á byggingarrétti, en þar er um að ræða uppbyggingu við Valhöll við Háaleitisbraut, þar sem skrifstofur flokksins eru.

Ef sú upphæð er hins vegar dregin frá tekjum Sjálfstæðisflokksins var rekstrarniðurstaða ársins einnig neikvæð eins og hjá öðrum flokkum, en þetta má sjá á gröfunum hér fyrir neðan.

Sumir náðu að safna nóg árið áður

Þá er einnig forvitnilegt að skoða hver uppsafnaður hagnaður eða tap er á árunum 2020 og 2021. Aftur sker Sjálfstæðisflokkurinn sig úr með yfir 300 milljóna hagnaði þessi tvö ár. Ef umrædda sala byggingarréttar er aftur tekin út fyrir sviga er niðurstaðan hins vegar tap, líkt og hjá öllum flokkunum fyrir utan Miðflokk, sem er með uppsafnaðan hagnað upp á 2,7 milljónir, og Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, sem er með hagnað upp á 1,6 milljónir.

Uppsafnað tap Viðreisnar þessi tvö ár er 53 milljónir, en flokkurinn tapaði 56 milljónum árið 2021 og var aðeins með 3,5 milljónir í hagnað árið áður til að vega það upp. Flokkur fólksins tapaði 60 milljónum árið 2021, en var með hagnað árið áður upp á rúmlega 29 milljónir og var samtals


Stærstu upphæðirnar til Sjálfstæðisflokksins

Í ársreikningunum má einnig sjá hver framlög til flokkanna voru á árinu, skipt niður eftir í opinber framlög, framlög einstaklinga og framlög lögaðila. Í ársreikningi Pírata, sem Ríkisendurskoðun hefur enn ekki samþykkt, kemur fram hver opinber framlög frá ríkinu hafi verið, en svo er gefin upp tala undir „ýmsir styrkir“ og ekki sundurgreint hvort það sé um lögaðila eða einstaklinga að ræða. Kemur hún því sér fram á grafinu hér að neðan.

Sósíalistaflokkurinn nartar í hæla fjórflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn var með hæstu heildarframlögin árið 2021, eða um rétt rúmlega 302 milljónir. Er það tæplega tvöfalt hærri upphæð en næsti flokkur fékk, en það var Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Fékk VG 160 milljónir í heildarframlög. Þar á eftir kom Framsóknarflokkurinn með 140 milljónir og Samfylkingin með 137 milljónir. Miðflokkurinn fékk 108 milljónir og Viðreisn 92 milljónir. Lægstu heildarframlögin fékk Sósíalistaflokkurinn, eða 17,8 milljónir, en enginn frambjóðandi flokksins komst á þing í síðustu kosningum. Það þýðir þó síður en svo að flokkurinn hafi fengið lægstu framlög frá einstaklingum og voru aðeins fjórflokkarnir svonefndu með hærri framlög einstaklinga.

Sjálfstæðisflokkurinn sker sig reyndar úr varðandi alla flokka framlaga. Varðandi opinber framlög fær flokkurinn 222 milljónir, rúmlega 80 milljónum meira en VG og 100 milljónum meira en Samfylkingin. Þá safnaði flokkurinn 32 milljónum í styrki frá lögaðilum, en næst þar á eftir var framsóknarflokkurinn með 20 milljónir og VG með 8 milljónir. Framlög einstaklinga og félagsgjöld til Sjálfstæðisflokksins námu þá 48 milljónum. Tekið er fram í ársreikningnum að ekkert framlag frá einstaklingi hafi verið yfir 300 þúsundum. Næst á eftir Sjálfstæðisflokknum var Framsóknarflokkurinn með 17,2 milljónir og Samfylkingin með 14,2 milljónir. VG fengu 12,6 milljónir frá einstaklingum og Sósíalistaflokkurinn er þar skammt eftir með 11,5 milljónir. Framlög einstaklinga til Flokks fólksins voru lægst, eða 393 þúsund, en það er aftur með fyrirvaranum um „ýmsa styrki“ í ársreikningi Pírata, en sá liður er upp á 7,2 milljónir.

740 milljónir í kosningar

Eins og fyrr segir fóru fram kosningar árið 2021 og sést það ágætlega í ársreikningum flokkanna. Samtals vörðu þeir tæplega 740 milljónum í kosningar samkvæmt ársreikningunum. Sjálfstæðisflokkurinn varði mestum fjármunum í prófkjör og kosningar, eða samtals um 168 milljónum. VG varði næst hæstu upphæðinni í kosningar, eða 123 milljónum. Framsókn, Miðflokkur, Samfylkingin og Viðreisn vörðu allir á milli 81-91 milljón í kosningar þetta ár, en þar fyrir neðan er Flokkur fólksins með um 70 milljónir og Píratar með 33 milljónir. Ekki kemur fram í ársreikningi Sósíalistaflokksins hver kostnaður við kosningar hafi verið.


Fasteignir hækka eignir nokkurra flokka umtalsvert

Áhugavert er einnig að skoða efnahagsreikninga flokkanna og rýna í eignir, skuldir og handbært fé. Í sumum tilfellum eru eignirnar talsverðar, en þá er oftast um að ræða að flokkarnir eigi fasteignir. Í lok ársins 2021 voru þrír flokkar með undir 5 milljónir í handbært fé, en það eru Píratar með 1,5 milljónir, Viðreisn með 3,4 milljónir og Sósíalistaflokkurinn með 4,4 milljónir. Sjálfstæðisflokkurinn var hins vegar með 210 milljónir í handbært fé, en þar á eftir kom VG með 55 milljónir og Samfylkingin með 54 milljónir.

Sjálfstæðisflokkurinn er með skráðar eignir upp á 1,7 milljarð. Stærsti liðurinn þar er fasteignir upp á 1,2 milljarða, en til viðbótar átti flokkurinn skammtímakröfur vegna lóðar og byggingarréttar á Valhallarreitnum upp á 200 milljónir og 209 milljónir í handbært fé.

10 fasteignir Framsóknar og 7 hjá Samfylkingu

Eignir Framsóknarflokksins eru metnar á 213 milljónir, en þar af eru fasteignir metnar á 126 milljónir, ýmsar kröfur á 44 milljónir og handbært fé á 34 milljónir. Fram kemur í ársreikningi flokksins að samtals séu 10 fasteignir í samstæðunni, en fasteignamat þeirra er 293 milljónir og brunabótamat 576 milljónir.

Eignir Samfylkingarinnar eru metnar á 191 milljón. Aftur eru fasteignir stærsti hlutinn, eða upp á 123 milljónir, en kröfur eru 9 milljónir og handbært fé 53 milljónir. Samtals á Samfylkingin sjö fasteignir sem eru með fasteignamat upp á um 148 milljónir og brunabótamat upp á 316 milljónir.

Skuldir frá 263 þúsund upp í 466 milljónir

Flestir flokkar skulda einhverja fjármuni, en tveir flokkar standa úr varðandi upphæðir. Þannig eru skuldir Sjálfstæðisflokksins upp á samtals 466 milljónir, en þar eru langtímaskuldir upp á 430 milljónir. Framsóknarflokkurinn skuldar 239 milljónir, en langtímaskuldir eru 134 milljónir. Tekið er fram í ársreikningi flokksins að um helmingur þeirrar upphæðar sé í erlendum gjaldmiðlum á móti helmingi í íslenskum krónum.

Viðreisn og Samfylking skulda hvor flokkur um 40 milljónir og Píratar 27 milljónir. VG sker sig úr af fjórflokknum og skuldar aðeins 3 milljónir, en þar fyrir neðan er Flokkur fólksins með 970 þúsund í skuldir og Sósíalistaflokkurinn með 263 sem voru útistandandi í árslok 2021.

Tveir með neikvætt eigið fé

Eins og fyrr segir er Sjálfstæðisflokkurinn með mest eigið fé, en það nemur 1,25 milljörðum. Þar á eftir er Samfylkingin með 151 milljón, Miðflokkurinn með 84 milljónir og VG með 59 milljónir. Framsóknarflokkurinn er hins vegar með neikvætt eigið fé upp á 26 milljónir og Viðreisn með neikvætt eigið fé upp á 35 milljónir.

Þess ber þó að geta að Framsóknarflokkurinn bætti verulega við sig í síðustu Alþingiskosningum og fékk flokkurinn 13 þingmenn en hafði áður verið með 8. Mun það því líklega auka talsvert opinber framlög til flokksins á næstu árum, en til viðbótar bætti Framsókn mjög víða við sig í sveitarstjórnarkosningum í fyrra sem einnig ættu að hækka opinber framlög til flokksins. Viðreisn bætti einnig við sig í þingkosningunum síðast, en fór þó aðeins upp um einn þingmann, úr fjórum í fimm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert