Þrír milljarðar sem vel er hægt að nota á næsta ári

„Hann stendur vel, þannig. Það eru örugglega einhverjir rúmir þrír milljarðar í verkfallssjóði,“ segir Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, spurð um stöðu verkfallssjóðs Eflingar. 

Enn bólar ekkert á tilkynningu um atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir, eftir að Efling sleit viðræðum við Samtök atvinnulífsins í vikunni og hvorki útfærsla né tímasetning aðgerða liggur fyrir. 

Ólöf Helga er gest­ur Karítas­ar Rík­h­arðsdótt­ur í Dag­mál­um þar sem hún fer yfir þátt­töku sína í starfi Efl­ing­ar, sam­skipti sín inn­an stjórn­ar, fyr­ir og eft­ir að Sól­veig gekk út og sagði af sér, og sína sýn á verk­falls­boðun sem nú vof­ir yfir.

„En þetta eru þrír milljarðar sem við getum virkilega notað á næsta ári þegar við erum að berjast fyrir stóru hlutunum,“ bætir Ólöf Helga við. 

Staða Sólveigar breytt

Hún segir aðra stöðu vera innan Eflingar nú, til að fara í mótframboð við lista Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, en áður. Í vor fer fram kjör í minni hluta stjórnarinnar og kosið verður til meiri hluta stjórnarinnar á næsta ári.

„Núna erum við búin að sjá verkalýðsleiðtoga, Sólveigu Önnu, ganga út, vera með læti, gera lítið úr starfsfólki sínu. Ná kjöri aftur – og alls ekki með eins sterku umboði og áður – hún var með rúm fimmtíu prósent núna, og þá fer hún beint í hreinsanir. Hún fer í hópuppsagnir, kallar þær skipulagsbreytingar, breytir í rauninni engu nema nokkrum starfsheitum og tapar fjórum dómsmálum og er svo bara búin að tilkynna verkfall löngu áður er við erum byrjuð í kjaraviðræðum. Ætlar svo bara í verkföll.“

Blóðugt að missa afturvirkni

Ólöf segir að það sé blóðugt að missa afturvirkni nýrra kjarasamninga fyrir minni ávinning sem aldrei getur bætt upp tapið á afturvirkninni.

mbl.is