Ekkert sem bendir til að kakkalakkar séu í versluninni

Krónan rekur verslanir víða á höfuðborgarsvæðinu.
Krónan rekur verslanir víða á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Hjörtur

Gripið var til aðgerða í einni af matvöruverslunum Krónunnar í morgun vegna gruns um að kakkalakki hafi borist þaðan og heim til viðskiptavinar. 

Mbl.is greindi frá því í gær að viðskiptavinurinn hefði fundið kakkalakka í innkaupapoka frá versluninni. 

„Já, ég get staðfest að þessi viðskiptavinur verslaði hjá okkur í Krónunni í Austurveri,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

„Við erum með vottaða fagaðila sem sjá um meindýravarnir hjá okkur til að verjast svona löguðu. Við höfðum strax samband við okkar meindýraeyði og sendum hann í verslunina áður en hún opnaði í morgun. Hann fullvissar okkur um að ekkert bendi til þess að kakkalakkar séu í versluninni. Hann setti einnig upp auka búnað til að fylgja þessu enn frekar eftir,“ segir Guðrún.

Allur er varinn góður 

Hvorki hún né samstarfsfólk hennar man eftir því að hafa séð kakkalakka í verslunum hjá Krónunni en því miður sé orðið meira um ýmis skordýr á Íslandi en áður var.

„Kakkalakkar hafa verið hér á landi um árabil, bæði berast þeir til landsins með varningi og með fólki. Þetta þýðir að allur er varinn góður og þess vegna erum við með öflugar meindýravarnir í okkar verslunum. Það er ómögulegt að segja hvaðan þessi kakkalakki kom en það er alla vega ekkert sem bendir til að það séu kakkalakkar í verslun okkar í Austurveri.“

Krónan hafði samband við viðskiptavininn til að kynna sér málið betur. „Um leið og við fréttum af málinu var haft samband við viðskiptavininn til að grennslast betur fyrir um hvað var um að ræða og fara í viðeigandi aðgerðir í kjölfarið,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert