„Þetta er íslenskt blóð“

Jón Páll Sigmarsson setti mark sitt á kraftasport á Íslandi …
Jón Páll Sigmarsson setti mark sitt á kraftasport á Íslandi og þótt víðar væri leitað allan níunda áratug síðustu aldar og fram á þann tíunda. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er ekkert mál fyrir Jón Pál!“ ætti að hljóma kunnuglega í eyrum flestra Íslendinga sem komnir eru af því allra léttasta, einn margra frasa sem einn ástsælasti íþróttamaður þjóðarinnar á níunda áratugnum, Jón Páll Sigmarsson heitinn, gerði ódauðlega. Í dag eru 30 ár síðan Jón Páll lést langt fyrir aldur fram 16. janúar 1993, þá aðeins 32 ára gamall. Þau 32 ár voru hins vegar nýtt til hins ýtrasta og sjaldnast lognmolla.

Auk þess að verða sterkasti maður heims fjórum sinnum og hafna í öðru sæti í þeirri fornfrægu keppni í tvígang og eitt sinnið í þriðja sæti vann Jón Páll til fjölda titla á ferli sínum, innanlands sem á alþjóðavettvangi, auk þess að venda sínu kvæði í kross og verða í þrígang Íslandsmeistari í vaxtarrækt þar sem áherslurnar eru töluvert ólíkar kraftlyftingunum.

Öll árin sem titlarnir unnust í vaxtarræktinni, 1984, 1986 og 1988, fyrsta árið í þyngdarflokki og opnum flokki, annað árið í þyngdarflokki og það þriðja í þyngdarflokki og opnum, varð Jón Páll einnig sterkasti maður heims.

Ávallt stutt í víkingatengslin

Ráku margir upp stór augu yfir því fyrsta keppnisárið í vaxtarrækt hve snöggur hann var að koma sér úr kraftlyftingahamnum yfir í helskafið vaxtarræktarform en Jón Páll æfði þá lyftingarnar í gamla Jakabóli og sinnti vaxtarræktinni samtímis í Orkubót, síðar Orkulind, hjá Stefáni Hallgrímssyni tugþrautarkappa, öðru nafni „Stevie“.

„Vöðvar hans eru sem brotnir úr íslensku hrauni,“ ritaði greinarhöfundur …
„Vöðvar hans eru sem brotnir úr íslensku hrauni,“ ritaði greinarhöfundur vaxtarræktartímaritsins Muscle & Fitness í septemberhefti blaðsins árið 1987 þar sem meðal annars var gert að umtalsefni að Jón Páll virtist jafnvígur á aflraunir og vaxtarrækt. mbl.is

Samhliða einstæðum ferli í kraftlyfingum og öðrum aflraunum varð Jón Páll vinsæll skemmtikraftur um allt land og kom víða fram á sviði þar sem hann beyglaði saman reiðhjól með berum höndum eða reif hnausþykkar símaskrár þess tíma í tvennt. Frægt er einnig sýningaratriði þeirra Hjalta „Úrsusar“ Árnasonar á Íslandsmeistaramóti í vaxtarrækt þar sem Hjalti braut gangstéttarhellu á brjóstkassa Jóns Páls en báðir höfðu þeir æft karate í árdaga þeirrar íþróttar hér á landi. Sjónvarpsauglýsingar Jóns Páls fyrir ávaxtadrykkinn Svala og lýsi eru mörgum enn fremur í fersku minni.

Vel þaninn á einu af fjöldamörgum mótum sem Jón Páll …
Vel þaninn á einu af fjöldamörgum mótum sem Jón Páll keppti á erlendis. Ljósmynd/Aðsend

Líklega hafa fáir afreksíþróttamenn íslenskir blásið til annarrar eins landkynningar og Jón Páll gerði í viðtölum við erlenda fjölmiðla þar sem hann gerði tengingu Íslands við víkinga hátt undir höfði. „Þetta er íslenskt blóð – víkingablóð!“ kastaði hann fram þegar hann rann til við að velta bíl á sterkasta manni heims í Frakklandi 1986, hruflaði sig á sköflungi og einhver fjölmiðillinn náði honum í stutt viðtal á meðan sárið var hreinsað. Eins vitnaði Jón Páll hiklaust í ömmu sína í öðru viðtali erlendis svo heimildir hans komu víða að.

Engin ástæða til að lifa án réttstöðulyftu

Eftirminnilegust þykir þó vafalítið mörgum yfirlýsingin um að engin ástæða væri til að vera á lífi gætu menn ekki stundað réttstöðulyftu sem Jón Páll öskraði yfir áhorfendur á móti í Skotlandi á meðan hann hélt á 455 kílógrömmum í efstu stöðu í þeirri grein. Síðar leit stuttermabolur með þeirri tilvitnun dagsins ljós auk þess sem finna má myndskeið af lyftunni á YouTube.

Ísklifur var „Ísmanninum“, eins og Muscle & Fitness kallaði Jón …
Ísklifur var „Ísmanninum“, eins og Muscle & Fitness kallaði Jón Pál, engin ofraun frekar en margt annað. Ljósmynd/Aðsend

Í septembertölublaði sínu árið 1987 ritaði vaxtarræktartímaritið Muscle & Fitness heilmikla samantekt um „Ísmanninn“ sem virtist jafnvígur á vaxtarrækt og aflraunir auk þess sem greinarhöfundur gerði að sérstöku umtalsefni hve mikill skemmtikraftur Jón Páll væri. „Vöðvar hans eru sem brotnir úr íslensku hrauni. Áhorfendur velkjast ekki í vafa um að þeir séu ekki aðeins til sýnis heldur einnig til brúks,“ skrifaði greinarhöfundur.

Síðar í umfjölluninni segir sem svo: „Um þessar mundir vann Jón Páll fyrir sér sem útkastari á erfiðasta öldurhúsi Reykjavíkur. Hann var án efa einstakur í stéttinni, því þar fór ekki górilla með bindishnút og þrútna hnúa til marks um iðju sína. Hann kaus heldur að róa óróaseggi með orðum og var tregur að neyta aflsmunar.“

Á leið í eða úr viðtali á erlendri grundu en …
Á leið í eða úr viðtali á erlendri grundu en þau urðu býsna mörg á tíð Jóns Páls sem nýtti hvert tækifæri til að ræða víkingablóð sitt og íslenskrar þjóðar. Ljósmynd/Aðsend

Bók Jóns Óskars brunnur frásagna

Er þar vísað í störf Jóns Páls við dyravörslu á Hótel Borg hvað svo sem segja má um þá yfirlýsingu Muscle & Fitness að þar hafi verið erfiðasta öldurhús Reykjavíkur á níunda áratugnum. Jón Óskar Sólnes íþróttafréttamaður skrásetti ævi- og afrekasögu Jóns Páls á sínum tíma og gaf út á bók árið 1987 undir titlinum Jón Páll – sterkasti maður heims. Hafði Jón Páll gjarnan orðið á síðum þess verks enda frásagnamaður hinn mesti. Segir hann þar meðal annars af Hótel Borg.

„Mjög róstursamt var á Borginni á þessum árum. Einhvern tímann hafði verið danglað í dyraverðina þar og var hringt upp í Jakaból því að þeir vildu ráða menn til að stemma stigu við þessari skálmöld [...] Þetta símtal varð þess valdandi að margir þeirra sem æfðu í Jakabóli, fóru að vinna á Borginni og þó að ég hafi ekki kært mig um svona starf í fyrstu þá lét ég tilleiðast á endanum, en var ekki með þeim fyrstu,“ hefur Jón Óskar eftir Jóni Páli í bókinni.

Þótt Jón Páll hafi jafnan verið brosandi út að eyrum …
Þótt Jón Páll hafi jafnan verið brosandi út að eyrum á myndum náðist ein og ein af honum brúnvölum mjög. Ljósmynd/Aðsend

Þessi starfi hentaði Jóni Páli ákaflega vel og varð hann þekktur fyrir að taka þéttingsfast utan um þá sem þurftu að fara að sofa úr sér og bera þá út á götu. Kallaði hann Borgina gósenland lyftingamanna þar sem dyraverðirnir fengu þar frítt að borða. „Var ég eiginlega dyravörður eldhússins sökum þess hve tíður gestur ég var í búrinu,“ sagði Jón Páll frá.

„Ég hafði aldrei séð annað eins“

Þá er ekki síður minnisstæð frásögn þeirra Jóns Óskars og Jóns Páls af einvígi þeirra heljarmenna Bills Kazmaier frá Bandaríkjunum, hins breska Geoff Capes og Jóns Páls í Huntly-kastalanum í Skotlandi sumarið 1987 sem sjónvarpað var á Íslandi. Segja má að erlendu keppinautarnir hafi báðir haft mjög ákveðin sérkenni, Capes á kafi í páfagaukarækt en Kazmaier hafði sett heimsmet í gullfiskaáti þegar hann sporðrenndi 800 gullfiskum í keppni í Bandaríkjunum.

Jón Páll ók lengi um á forláta Fiat Uno en …
Jón Páll ók lengi um á forláta Fiat Uno en þessi færleikur fór honum kannski betur. Bifreiðakosturinn í baksýn geymir óneitanlega mikla sagnfræði horfinna áratuga. Ljósmynd/Aðsend

Jón Páll lýsti upplifun sinni af Bandaríkjamanninum fyrir Jóni Óskari: „Þetta var í fyrsta skipti sem ég sá Bill Kazmaier og ég hafði aldrei séð annað eins. Mér flaug strax í hug að þarna væri Glámur nútímans kominn. Trapesius-vöðvinn frá öxlum upp á háls, sem Megas kallar skávöðva, var á Kazmaier eins og Mount Everest úr holdi.“

Jón Páll var léttastur þeirra jötnanna þriggja og hugðist þyngja sig svo sem kostur væri kvöldið fyrir fyrsta keppnisdag. Lét hann bera sér kynstrin öll af rjómaís með jarðarberjum og þegar hann tók til við áttundu skálina gat Kazmaier, sem sat við næsta borð, ekki orða bundist og sagði: „Þessir Íslendingar eru kannski sterkir, en þeir vita ekkert um næringarfræði!“ Leikar fóru þó svo í Huntly-kastalanum að Jón Páll Sigmarsson sigraði með yfirburðum og hlaut 28 af 30 stigum þegar lokastaðan lá fyrir.

Zürich-förin vorið 1979

Eina sögu í viðbót má rifja upp af síðum Jóns Óskars sem er af Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum í Zürich í Sviss 15. maí 1979, snemma á ferli Jóns Páls sem formlega hófst handa við stálið 1. janúar 1978 í vöggu lyftinga á Íslandi, Jakabóli sem KR-ingar ráku þá í Laugardalnum.

Í þjóðlegum fatnaði á móti í Skotlandi.
Í þjóðlegum fatnaði á móti í Skotlandi. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var ekki nógu vel fyrirkallaður á þessu fyrsta erlenda móti mínu og setti nokkuð skondin uppákoma strik í reikninginn. Þannig var að Sverrir Hjaltason [samkeppandi Jóns Páls fyrir Íslands hönd ásamt Skúla Óskarssyni] varð einatt að létta sig niður í 82,5 kg flokkinn sem gerði það að verkum að hann fékk alltaf krampa eftir mót. Og nokkru eftir að hann hafði lokið keppni vorum við Íslendingarnir staddir á veitingahúsi niðri í miðborginni þegar hann hrynur í gólfið allur í hnút.

Við vorum þarna á keppnistreyjum allir merktir í bak og fyrir og þótti ekki gott afspurnar að einn af keppnismönnum íslenska liðsins lægi þarna eins og tuska! Fólk myndi sennilega setja þetta í samband við áfengisneyslu. Tók ég því Sverri eins og kartöflupoka og setti upp á öxlina og fannst mér hann helst líkjast risastórum kuðungi. Ég arkaði með hann dágóðan spöl eftir göngugötu í átt að aðalgötu og húkkaði leigubíl. Ég man ég stakk honum inn í bílinn eins og einhverjum bagga! Hann gat ekki rétt úr sér og var æpandi og veinandi af sársauka. Þegar ég hafði borið hann upp á hótelherbergi var ég orðinn rosalega þreyttur. Svo þetta byrjaði ekki gæfulega hjá mér,“ rifjaði Jón Páll upp af förinni á EM í Zürich undir lok áttunda áratugarins.

Sviðahausar og kartöflumús í Eyjum

„Við Palli vorum mjög náin,“ segir Sigrún Sigmarsdóttir, systir Jóns Páls, í samtali við mbl.is. „Hann hringdi oft í mig þegar hann var erlendis og heimsótti mig oft til Vestmannaeyja,“ heldur hún áfram og rifjar upp þegar hún fór og heimsótti Jón Pál til Glasgow í Skotlandi og hann tók hana með í heimsókn til umboðsmanns síns á þeim tíma, dr. Douglas Edmunds, aflraunamanns og dómara í keppninni um sterkasta mann heims.

„Spegill spegill, herm þú mér...“ eins segir í ævintýrinu.
„Spegill spegill, herm þú mér...“ eins segir í ævintýrinu. Ljósmynd/Aðsend

„Ég man að hann kom á minnsta bíl sem ég hef séð að ná í mig á hótelið. Bíllinn var svo lítill að við þurftum að sitja þétt saman í framsætinu, algjör skrjóður og hálfpústlaus. Ferðinni var heitið í sveitina að heimsækja Douglas. Þegar ég gekk inn í húsið hjá Douglas blöstu þar við myndir af Jóni Páli í einu herberginu, á öllum veggjum, auk verðlaunagripa. „Þetta er Jóns Páls herbergi, svona verður þetta alltaf,““ hefur Sigrún eftir Edmunds í Skotlandsheimsókninni.

Bjartleitur aflraunamaður með handleggi af öðrum heimi.
Bjartleitur aflraunamaður með handleggi af öðrum heimi. Ljósmynd/Aðsend

Eins rifjar Sigrún upp heimsókn Jóns Páls og Hjalta „Úrsusar“ á Þjóðhátíð í Eyjum árið 1988. „Þeir komu í mat til mín og vildu alvörumat svo ég ákvað að gefa þeim svið,“ segist Sigrúnu frá. „Ég hafði þrjá hausa á hvorn og fullan súpupott af kartöflumús handa þeim. Það var ekki auðvelt að gera mús í svona stórum potti. En þeir voru hæstánægðir, sögðu að þetta væri alvörumatur fyrir alvörumenn,“ segir Sigrún af þjóðhátíðinni fyrir réttum 35 árum.

Þungbær janúardagur 1993

Að lokum segir Sigrún af dánardegi bróður síns fyrir þremur áratugum. „Ég var stödd heima í Eyjum og síminn hringir. Á hinum enda línunnar var Guðrún Rósa frænka mín sem þá starfaði á bráðamóttökunni. Hún segir mér að því miður færi hún slæmar fréttir og réttir svo sjúkrahúsprestinum símann,“ segir Sigrún.

„Þannig er mál með vexti að Jón Páll er dáinn. Hann var að æfa í GYM80 og hneig niður,“ hefur Sigrún eftir prestinum og kveðst því næst hafa þurft að koma boðum til Sigmars, föður þeirra Jóns Páls, en þau voru hálfsystkini, um hvað gerst hefði. Hann var hins vegar staddur í Frankfurt í Þýskalandi ásamt móður Sigrúnar.

Rjómaís var Jóni Páli jafnan aflgjafi og hló Bill Kazmaier …
Rjómaís var Jóni Páli jafnan aflgjafi og hló Bill Kazmaier að ísáti hans í Huntly-kastalanum í Skotlandi kvöldið fyrir keppni en mátti svo láta í minni pokann fyrir ísmanninum á efsta degi. Ljósmynd/Aðsend

„Ég vissi ekkert hvernig ég átti að fara að því, þarna voru GSM-símarnir ekki komnir svo ég hringdi í upplýsingar hjá Pósti og síma og bað um símanúmerið á hótelinu sem pabbi og mamma dvöldu á, ég hafði það fyrir reglu að spyrja þau á hvaða hóteli þau yrðu ef eitthvað kæmi upp á,“ segir Sigrún frá.

Hún hafi svo varla getað komið upp orði þegar móðir hennar svaraði í símann. „Ég segi henni að Palli hafi dáið þegar ég næ tökum á tárunum og svo kemur pabbi í símann og ég segi honum hvað gerst hafi. Þetta var ótrúlega erfitt fyrir pabba en hann bar harm sinn í hljóði. Núna eru 30 ár liðin síðan Palli bróðir lést. Mér finnst þetta hafa liðið ótrúlega hratt. Ég fer oft og heimsæki hann í Lágafellskirkjugarð, síðast núna á Þorláksmessu,“ segir Sigrún og bætir því við að kistulagningin hafi verið henni sérstaklega þungbær á sínum tíma.

„Ég sakna hans mikið, hann var minn besti vinur og við töluðum mikið saman,“ segir Sigrún Sigmarsdóttir sem hefur látið húðflúra dánardagsetningu Jóns Páls á handlegginn með hjartamynstri umhverfis.

Með ungum aðdáendum árið 1988, þeir voru þó nokkrir enda …
Með ungum aðdáendum árið 1988, þeir voru þó nokkrir enda Jón Páll lunkinn skemmtikraftur samhliða keppnismennskunni auk þess að vera andlit ávaxtadrykkjarins Svala um árabil. Ljósmynd/Aðsend

Fæstar myndanna með þessari samantekt hafa birst opinberlega áður þótt fáeinar hafi gert það, hinar lét fjölskylda Jóns Páls í té fyrir þessar línur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert