Mál læknis verður sent til héraðssaksóknara

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglurannsókn er að ljúka á hendur Skúla Tómasi Gunnlaugssyni, fyrrverandi yfirlækni á sjúkrasviði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, en hann er grunaður í sex málum sem snúa að andlátum sjúklinga á HSS, sem ætla má að hafi verið ótímabær og borið að með saknæmum hætti.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, staðfesti við mbl.is að málið verði sent til héraðssaksóknara til ákærumeðferðar síðar í þessum mánuði.

Embætti land­lækn­is hóf rannsókn á störfum læknisins í nóv­em­ber 2019 vegna gruns um van­rækslu og röð al­var­legra mistaka.

Fjöl­skylda konu sem lést á HSS kallaði eftir því að rann­saka bæri meðferð sem móðir þeirra fékk sem mann­dráp en hún hafi verið send í lífs­lokameðferð án sýni­legr­ar ástæðu. Vísaði fjölskyldan í álit Lands­lækn­is því til stuðnings.

Læknirinn var grunaður um að hafa látið 14 einstaklinga hefja ótímabæra lífslokameðferð þar sem níu höfðu látist en fimm fluttir á hjúkrunarheimili og í kjölfarið hætt slíkri meðferð.

Lögmaður hans lét hafa eftir sér um mitt síðasta ár að málið verði líklega fellt niður í kjölfar matsgerðar dómskvaddra matsmanna, sem telji að skrán­ing lækn­is­meðferða á Heil­brigðis­stofn­un Suður­nesja í tölvu­kerf­um hafi verið með öðrum hætti en á öðrum sjúkra­stofn­un­un­um og ekki hafi verið sam­ræmi á milli skrán­ing­ar í tölvu­kef­um og þeirra meðferða sem hafi verið veitt­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert