Verðmætir hlutir renna ekki til þrotabús Karls

Niðurstaða héraðsdóms um að vísa frá dómi kröfu þrotabús Karls …
Niðurstaða héraðsdóms um að vísa frá dómi kröfu þrotabús Karls Emils Wernerssonar um afsal allra hluta í Toska ehf. var staðfest í Landsrétti. Þá var þrotabúinu gert að greiða Jóni Hilmari Karlssyni 350.000 krónur í kærumálskostnað. mbl.is/Samsett mynd

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness um að vísa frá dómi kröfu þrotabús Karls Emils Wernerssonar um afsal allra hluta í Toska ehf.

Fram kemur í úrskurði Landsréttar, sem féll í desember, að málatilbúnaður þrotabúsins hafi verið svo óljós og vanreifaður hvað þessa kröfu varðar að óhjákvæmilegt hafi verið að vísa henni sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Héraðsdómur rifti í lok október ráðstöf­un Karls frá ár­inu 2014 á sölu allra hluta í Toska ehf. til son­ar síns, Jóns Hilm­ars Karls­son­ar. Þá var Jón dæmd­ur til að greiða þrota­búinu 464 millj­ón­ir kr. auk drátta­vaxta í tæp­lega fjög­ur ár. Héraðsdómur vísaði aftur á móti frá dómi aðalkröfu þrotabúsins um afsal allra hluta í Toska, og kærði þrotabúið þann hluta málsins til Landsréttar.

Í úrskurði Landsréttar, sem féll 14. desember en var birtur í dag, kemur fram að þrotabúið hafi í aðalkröfu sinni krafist þess að Jón yrði dæmdur til að afsala aftur til þrotabúsins öllum hlutunum í félaginu gegn greiðslu er næmi 1.133.000 krónum. Tekið er fram, að meginreglan við riftun sé að aðilar skuli verða eins settir fjárhagslega og ef hin riftanlega ráðstöfun hefði ekki verið gerð.

Verðmæti hlutanna hafa aukist margfalt

Með vísan til verðmætaaukningar hluta í félaginu hefði verið nauðsynlegt að þrotabúið rökstyddi með hvaða hætti aðalkrafa þess, um að Jón yrði dæmdur til að afsala aftur til þrotabúsins öllum hlutum í félaginu gegn greiðslu er næmi söluverði hlutanna, færi saman við framangreinda meginreglu og hvort og þá með hvaða hætti hann myndi jafna greiðslur aðila. Í úrskurði Landsréttar segir að það hafi þrotabúið ekki gert.

Í úrskurðinum segir einnig að ráða megi að verðmæti hlutanna hafi aukist margfalt frá sölu þeirra og að sú verðmætaaukning stafi ekki af markaðsaðstæðum einum saman.

„Þannig liggur fyrir að stjórnendur dótturfélaga Toska ehf., þar á meðal Lyfja og heilsu hf., hafa frá árinu 2014 fjárfest árlega fyrir háar fjárhæðir á grundvelli sérstakra fjárfestingaáætlana. Hafa varnaraðilar leitt að því líkur að það sé ekki síst vegna þeirra fjárfestinga sem verðmæti hluta Toska ehf. hefur vaxið jafn mikið og raun ber vitni,“ segir í úrskurði Landsréttar.

Taldi Landsréttur málatilbúnað þrotabúsins að þessu leyti svo óljósan og vanreifaðan að óhjákvæmilegt væri að vísa þessari kröfu hans sjálfkrafa frá héraðsdómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert