„Hefði getað farið mjög illa“

Páll Erland forstjóri HS Veitna.
Páll Erland forstjóri HS Veitna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það blasir við að þetta hefði getað farið mjög illa,“ segir Páll Erland, forstjóri HS Veitna, um bilunina sem varð í Suðurnesjalínu 1 á mánudaginn með þeim afleiðingum að rafmagnslaust og heitavatnslaust varð á Suðurnesjum.

HS Veitur settu inn færslu á vef fyrirtækisins í gær eftir að rafmagnslaust hafði orðið á Suðurnesjum á mánudaginn. Þar segir að eftir jafn stóra bilun og þessa geti komið upp ýmis vandamál hjá notendum og er viðskiptavinum bent á að hafa samband við HS Veitur ef eitthvað bjátar á.

Páll segir að skammur tími sé liðinn frá biluninni en á þessum tímapunkti sé ekki útlit fyrir alvarlegar skemmdir hjá fyrirtækinu. „Enn sem komið er bendir allt til þess að þetta hafi farið eins vel og hægt er. Tíminn á eftir að leiða það betur í ljós en ekkert bendir til þess að miklar skemmdir hafi orðið í stórum lögnum fyrirtækisins. Notendur hafa hins vegar orðið fyrir alls kyns óþægindum vegna þessa og þá sér í lagi varðandi hitaveituna.“

Afkastagetan má ekki gleymast í umræðunni

Suðurnesjalína 2 hefur verið lengi í umræðunni varðandi afhendingaröryggi raforku á svæðinu. Páll minnir á að afkastageta Suðurnesjalínu 1 sé sprungin með ýmsum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki á Suðurnesjum. 

„Skortur á afhendingaröryggi er grafalvarlegt mál en afkastagetan má heldur ekki gleymast í umræðunni. Afkastageta línunnar er nú þegar sprungin. Fjöldi fyrirtækja vill koma upp starfsemi á Suðurnesjum en geta ekki vegna þess að flutningslínan getur ekki afhent meiri orku. Þannig hefur það verið í nokkurn tíma. Einnig eru fyrirtæki til staðar á Suðurnesjum sem hefðu viljað vaxa en fá ekki að gera það af sömu ástæðum. Eina lausnin á því er afkastameiri lína sem er Suðurnesjalína 2. Um leið er íbúafjölgun á svæðinu í raun takmörkuð út af afkastagetu línunnar. Í mínum huga er Suðurnesjalína 2 því eina framtíðarlausnin í þessum efnum. Þegar verið er að ræða um orkuöryggi á Suðunesjum þá snýst það annars vegar um afhendingaröryggi og hinsvegar um afkastagetu. Suðurnesjalína 2 er nauðsynleg strax því hún leysir hvorutveggja,“ segir Páll Erland í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert