Boðar Eflingu og SA á fund í næstu viku

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkissáttasemjari hefur boðað samninganefnd Eflingar og Samtök atvinnulífsins (SA) á fund næsta þriðjudag klukkan 11. 

Í dag eru tíu dagar síðan Efling sleit viðræðum við SA og hóf undirbúning að verkfallsboðun. Síðan þá hefur lítið sem ekkert heyrst frá samninganefndinni varðandi framgang mála og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ekki svarað ítrekuðum símtölum mbl.is í vikunni. 

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segir í samtali við mbl.is að í raun hafi ekkert breyst síðan Efling sleit viðræðunum. 

„Lögum samkvæmt þá eru haldnir fundir í kjaradeilum á tveggja vikna fresti, nema það sé samkomulag á milli aðila um eitthvað annað,“ svarar Aðalsteinn spurður af hverju sé verið að boða til fundar. Því sé um ákveðinn stöðufund að ræða. 

„Því miður er þessi kjaradeila í algjörum hnút.“

Hann segist hafa verið í samskiptum við aðila málsins en geti ekki upplýst um stöðu verkfallsboðunar Eflingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert