Eft­ir því tekið þegar íþrótta­fólk hníg­ur niður

Berglind Aðalsteinsdóttir hjartalæknir segir afreksíþróttafólk mest hafa verið skoðað í …
Berglind Aðalsteinsdóttir hjartalæknir segir afreksíþróttafólk mest hafa verið skoðað í aldurshópnum undir 35 ára en hjá eldra fólki fari aðrir sjúkdómar að taka við af þeim sem valda hjartastoppi í yngra fólki. Ljósmynd/Aðsend

„Við teljum okkur vera í sérstakri aðstöðu á Íslandi til að nota erfðaupplýsingar við leit að orsök hjartastopps,“ segir Berglind Aðalsteinsdóttir, hjartalæknir á Landspítalanum, í samtali við mbl.is en Berglind flutti á miðvikudag fyrirlestur um orsök skyndidauða ungmenna á Læknadögum 2023 í Hörpu.

Segir Berglind slíka nýtingu erfðaupplýsinga geta virkað fyrirbyggjandi séu fleiri í fjölskyldunni í áhættu. „Í tilfellum þar sem ungur einstaklingur fer í hjartastopp, hvort sem tekst að endurlífga hann eða ekki, er gríðarlega mikilvægt að leita að orsökinni og komast að því hvort hún sé arfgeng eða ekki,“ segir hjartalæknirinn.

Berglind fjallaði í erindi sínu almennt um skyndidauða ungmenna en áhersla málþingsins var á tengingu skyndidauða við íþróttaiðkun. Fjallaði Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala, um skimun íþróttamanna sérstaklega, Martin Halle frá deild forvarna og íþróttalæknisfræði hjá University Hospital Klinikum rechts der Isar við Tækniháskólann í München í Þýskalandi ræddi um klínískt mat á heilsu íþróttamanna og Kristján Guðmundsson hjartalæknir leitaði svara við þeirri spurningu hvort íþróttamenn sem hafa lifað af hjartastopp megi hefja keppni á ný.

Hjartastopp í umræðunni

„Þetta er eitthvað sem fólk hefur tekið eftir og hefur verið í umræðunni eftir meðal annars hjartastopp hjá [danska knattspyrnumanninum] Christian Eriksen og [knattspyrnumanninum] Emil Pálssyni og þannig kom hugmyndin að málþinginu til, fólk tekur eftir því þegar íþróttafólk dettur niður á keppnisvellinum,“ heldur Berglind áfram.

Bendir hún á rannsókn Gunnars Þórs Gunnarssonar, hjartalæknis á Akureyri, á skyndidauða ungmenna á Íslandi „og ég vísaði meðal annars í hans niðurstöður í þessum fyrirlestri, en það er eina íslenska rannsóknin sem hefur verið gerð á þessum vettvangi“, segir Berglind.

Hverjar eru þá helstu orsakir hjartastopps þegar ungt fólk í blóma lífsins á í hlut?

„Þá erum við að tala um sýnilega undirliggjandi hjartasjúkdóma í ákveðnum tilfellum en sjúkdóma sem geta leitt til raskana á raflífeðlisfræði hjartans í öðrum, þá lítur hjartað eðlilega út en við erum með raflífeðlisfræðileg röskun sem veldur hjartsláttartruflun sem getur leitt til hjartastopps,“ svarar Berglind.

Einn til tveir á hverja 100.000

Í allt að um þriðjungi tilfella finnist engin skýring á skyndidauða ungmenna við krufningu en þá geti erfðarannsókn í sumum tilfellum svarað spurningunni um orsök hjartastopps ef um arfgengan sjúkdóm er að ræða sem getur valdið frumkominni hjartsláttartruflun. Með aukinni þekkingu fari greiningarhlutfallið hækkandi. Skyndidauði er að sögn Berglindar ekki alltaf tengdur hjartanu heldur getur líka orsakast af sjúkdómum í öðrum líffærakerfum.

Hve algengur skyldi skyndidauði þá vera á heimsvísu?

„Rannsóknir hafa sýnt fram á að nýgengi hjá yngra fólki sé á bilinu einn til tveir á ári á hverja 100.000 einstaklinga. Nýgengið er þó hærra eftir því sem einstaklingar verða eldri en hjá eldra fólki en 35 ára fara að koma inn aðrir sjúkdómar, kransæðasjúkdómar verða til dæmis algengari orsök skyndidauða, en hjá yngra fólkinu sjáum við frekar hjartavöðvasjúkdóma og sjúkdóma sem valda frumkomnum hjartsláttartruflunum, en þessir sjúkdómar eru oft arfgengir,“ útskýrir Berglind.

Af þeim síðarnefndu sjúkdómum sem valda hjartsláttartruflunum, megi helst nefna heilkenni lengingar á QT-bili en þar er á ferð sjaldgæfur hjartasjúkdómur sem orsakað getur skyndilegt meðvitundarleysi og hjartastopp, oft hjá ungu og að öðru leyti heilbrigðu fólki.

Skella sér í járnkarl eða maraþon

Í hópi afreksíþróttafólks sé nýgengi nokkru hærra en í mannfjöldanum almennt og sem fyrr segir er aldur einnig afgerandi þáttur. „Afreksíþróttafólk hefur mest verið skoðað í hópnum undir 35 ára en þegar þú ert kominn með eldra fólk, eins og miðaldra fólk sem er að stunda íþróttir og tekur allt í einu upp á því að fara í járnkarl eða hálft maraþon eða eitthvað þannig, þá er kominn annar aldurshópur og kransæðasjúkdómar orðnir algengari orsök,“ segir læknirinn.

Að loknum þeim útskýringum sem vonandi nægja flestum leikmönnum til að átta sig örlítið á skyndidauða og orsökum hans er Berglind spurð út í vegferð sína í menntakerfinu.

Hún lauk námi við læknadeild Háskóla Íslands og þriggja ára prógrammi í almennum lyflækningum á Landspítalanum en hélt þaðan til fimm ára sérnáms í hjartalækningum í Bergen í Noregi áður en hún sneri heim á ný og lauk doktorsgráðu frá HÍ með doktorsverkefni sínu um ofvaxtarhjartavöðvakvilla sem er einn þeirra arfgengu kvilla sem þekktir eru fyrir að geta valdið hjartastoppi í ungu fólki.

„Eftir að hafa verið í prógramminu í almennum lyflækningum á Landspítalanum komst ég beint inn í hjartasérgreinina í Noregi,“ segir Berglind sem segir ákvörðunina um sérnám í Noregi hafa verið auðvelda. „Þægilegt aðgengi og stutt að fara og ég var líka að sækja í land með landslagi og fjöllum,“ segir Berglind Aðalsteinsdóttir hjartalæknir að lokum og kveðst hafa verið mjög ánægð með námsdvölina í Bergen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert