Grímur skipaður lögreglustjóri án auglýsingar

Grímur Hergeirsson hefur verið skipaður lögreglustjóri á Suðurlandi.
Grímur Hergeirsson hefur verið skipaður lögreglustjóri á Suðurlandi.

Grímur Hergeirsson hefur verið skipaður lögreglustjóri á Suðurlandi frá og með 1. apríl. Hann er núverandi lögreglustjóri í Vestmannaeyjum auk þess að hafa verið settur lögreglustjóri á Suðurlandi frá því í júlí á síðasta ári þegar Kjartan Þorkelsson fór í leyfi. Verður staða lögreglustjórans í Vestmannaeyjum nú auglýst og er umsóknarfrestur til 4. febrúar. Staða lögreglustjóra á Suðurlandi var hins vegar ekki auglýst, en það er Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sem skipaði í embættið.

Fjalar Sigurðarson, upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins, staðfestir í samtali við mbl.is að staðan hafi ekki verið auglýst, heldur hafi Grímur verið færður til í starfi. Var það gert á grundvelli 36. greinar laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar er kveðið á um að hægt sé að flytja starfsmann sem áður hefur verið skipaður í embætti úr einu embætti í annað, hvort sem það sé undir sama stjórnvaldi eða ekki.

Hóf störf í lögreglunni 1996

Grímur Hergeirsson hóf störf hjá lögreglunni í Reykjavík 1996 og var hjá lögreglunni á Selfossi 1997-2000. Árið 2001 var hann kennari við Lögregluskóla ríkisins. Á árunum 2002-2004 var hann rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Selfossi en varðstjóri í almennri deild síðasta árið. Á árunum 2005-2007 vann Grímur hjá Sveitarfélaginu Árborg, sem verkefnastjóri íþrótta-, forvarna og menningarmála. Frá útskrift 2009 til 2014 var Grímur starfandi lögmaður í samstarfi við aðra. Hann var löglærður fulltrúi í um níu mánuði hjá sýslumanninum á Selfossi á árunum 2014-2015.

Árið 2015 færði hann sig til lögreglustjórans á Suðurlandi og var fyrst rannsóknarlögreglumaður, síðar löglærður fulltrúi ákærusviðs, en frá 2017 staðgengill lögreglustjóra og yfirmaður ákærusviðs embættisins. Grímur var settur  lögreglustjóri á árinu 2020, fyrst á Suðurlandi og síðan á Suðurnesjum en frá nóvember 2020 hefur hann verið skipaður lögreglustjóri í Vestmannaeyjum og frá júlí á síðasta ári verið settur lögreglustjóri á Suðurlandi.

Nokkur nýleg dæmi um skipanir án auglýsingar

Nokkuð hefur verið fjallað um skipanir án auglýsingar undanfarið. Fyrir viku síðan var nýr forstjóri Sjúkratrygginga einnig skipaður án auglýsingar þegar Sigurður Helgi Helgason, fyrrverandi skrifstofustjóri stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, tók við stöðunni. Hafði fyrrverandi forstjóri Sjúkratrygginga, María Heimisdóttir, sagt upp störfum í lok nóvember.

Á haustmánuðum var Harpa Þórisdóttir skipuð þjóðminjavörður án þess að staðan væri auglýst. Var sú skipun talsvert gagnrýnd af t.d. Félagi fornleifafræðinga og Íslandsdeildar ICOM, alþjóðaráðs safna.

20% skipana án auglýsingar

Í kjölfar skipunar Hörpu var greint frá því að í um 20% embættisskipana síðustu 13 árin væri um flutning að ræða án auglýsingar. Gerði forsætisráðuneytið athugun á þessu og komst að því að á tímabilinu hefðu verið 334 embættisskipanir og voru 267 þeirra gerðar í kjölfar auglýsingar, en í 67 tilfellum voru embættismenn flutt­ir í önn­ur embætti, ým­ist á grund­velli flutn­ings­heim­ild­ar í lög­um um rétt­indi og skyld­ur starfs­manna rík­is­ins eða sér­stakra laga­heim­ilda.

Í kjölfar skipunar Hörpu sagði Lilja að eftir á að hyggja hefði verið betra að auglýsa stöðuna og að hún stefndi á að auglýsa öll störf eftir það.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipaði Sigurð í embætti Sjúkratrygginga og sagði við mbl.is eftir þá ákvörðun að almenna reglan væri auðvitað að auglýsa og að hann fylgdi henni. „Mér finnst það rétta leiðin,“ sagði hann.

mbl.is