Grímur Hergeirsson hefur verið skipaður lögreglustjóri á Suðurlandi frá og með 1. apríl. Hann er núverandi lögreglustjóri í Vestmannaeyjum auk þess að hafa verið settur lögreglustjóri á Suðurlandi frá því í júlí á síðasta ári þegar Kjartan Þorkelsson fór í leyfi. Verður staða lögreglustjórans í Vestmannaeyjum nú auglýst og er umsóknarfrestur til 4. febrúar. Staða lögreglustjóra á Suðurlandi var hins vegar ekki auglýst, en það er Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sem skipaði í embættið.
Fjalar Sigurðarson, upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins, staðfestir í samtali við mbl.is að staðan hafi ekki verið auglýst, heldur hafi Grímur verið færður til í starfi. Var það gert á grundvelli 36. greinar laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar er kveðið á um að hægt sé að flytja starfsmann sem áður hefur verið skipaður í embætti úr einu embætti í annað, hvort sem það sé undir sama stjórnvaldi eða ekki.
Grímur Hergeirsson hóf störf hjá lögreglunni í Reykjavík 1996 og var hjá lögreglunni á Selfossi 1997-2000. Árið 2001 var hann kennari við Lögregluskóla ríkisins. Á árunum 2002-2004 var hann rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Selfossi en varðstjóri í almennri deild síðasta árið. Á árunum 2005-2007 vann Grímur hjá Sveitarfélaginu Árborg, sem verkefnastjóri íþrótta-, forvarna og menningarmála. Frá útskrift 2009 til 2014 var Grímur starfandi lögmaður í samstarfi við aðra. Hann var löglærður fulltrúi í um níu mánuði hjá sýslumanninum á Selfossi á árunum 2014-2015.
Árið 2015 færði hann sig til lögreglustjórans á Suðurlandi og var fyrst rannsóknarlögreglumaður, síðar löglærður fulltrúi ákærusviðs, en frá 2017 staðgengill lögreglustjóra og yfirmaður ákærusviðs embættisins. Grímur var settur lögreglustjóri á árinu 2020, fyrst á Suðurlandi og síðan á Suðurnesjum en frá nóvember 2020 hefur hann verið skipaður lögreglustjóri í Vestmannaeyjum og frá júlí á síðasta ári verið settur lögreglustjóri á Suðurlandi.
Nokkuð hefur verið fjallað um skipanir án auglýsingar undanfarið. Fyrir viku síðan var nýr forstjóri Sjúkratrygginga einnig skipaður án auglýsingar þegar Sigurður Helgi Helgason, fyrrverandi skrifstofustjóri stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, tók við stöðunni. Hafði fyrrverandi forstjóri Sjúkratrygginga, María Heimisdóttir, sagt upp störfum í lok nóvember.
Á haustmánuðum var Harpa Þórisdóttir skipuð þjóðminjavörður án þess að staðan væri auglýst. Var sú skipun talsvert gagnrýnd af t.d. Félagi fornleifafræðinga og Íslandsdeildar ICOM, alþjóðaráðs safna.
Í kjölfar skipunar Hörpu var greint frá því að í um 20% embættisskipana síðustu 13 árin væri um flutning að ræða án auglýsingar. Gerði forsætisráðuneytið athugun á þessu og komst að því að á tímabilinu hefðu verið 334 embættisskipanir og voru 267 þeirra gerðar í kjölfar auglýsingar, en í 67 tilfellum voru embættismenn fluttir í önnur embætti, ýmist á grundvelli flutningsheimildar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eða sérstakra lagaheimilda.
Í kjölfar skipunar Hörpu sagði Lilja að eftir á að hyggja hefði verið betra að auglýsa stöðuna og að hún stefndi á að auglýsa öll störf eftir það.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipaði Sigurð í embætti Sjúkratrygginga og sagði við mbl.is eftir þá ákvörðun að almenna reglan væri auðvitað að auglýsa og að hann fylgdi henni. „Mér finnst það rétta leiðin,“ sagði hann.