Íslensk kona alvarlega særð eftir hnífaárás

Íslenskur maður er í haldi lögreglu í Noregi grunaður um …
Íslenskur maður er í haldi lögreglu í Noregi grunaður um að hafa stungið fyrrverandi eiginkonu sína. AFP/Stian Lysberg Solum

Íslensk kona er alvarlega særð eftir hnífaárás á McDonalds-veitingastað í bænum Karmoy í Noregi.

Í frétt NRK segir að maður á sjötugsaldri hafi verið handtekinn og sé grunaður um að hafa ráðist á fyrrverandi konu sína með hníf, en konan er einnig á sjötugsaldri.

RÚV segir að bæði konan sem varð fyrir árásinni, og fyrrverandi maður hennar, séu íslensk en hafi lengi búið í Noregi og séu norskir ríkisborgarar.

Maðurinn í nálgunarbanni

Lögreglu barst tilkynning um hnífstungu klukkan 13.44 í gær og fór fljótlega á vettvang. Maðurinn var handtekinn um 15 mínútum síðar í bíl lögðum fyrir utan heimili sitt.

Málið er rannsakað sem tilraun til manndráps en lögregla hefur ekki enn getað talað við konuna vegna ástands hennar.

Að sögn lögreglu hafði maðurinn áður verið dæmdur í nálgunarbann gagnvart konunni og liggur hann undir grun í öðru sakamáli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert