Ragnari líkt við Tarantino

Ragnar Jónasson nýtur sívaxandi vinsælda á erlendum vettvangi.
Ragnar Jónasson nýtur sívaxandi vinsælda á erlendum vettvangi. mbl.is/Árni Sæberg

Spennusagan Úti eftir Ragnar Jónasson er „kæfandi þriller … blanda af Agöthu Christie-sögu í snjó og Reservoir Dogs eftir Quentin Tarantino. Ísköld norræn glæpasaga,“ segir gagnrýnandi franska ríkissjónvarpsins á vef miðilsins en bókin kemur út þar í landi í dag.

Úti kemur nú út víða um lönd og má nefna að The Times Radio í Bretlandi sagði að bókin væri „Flugnahöfðinginn [Lord of the Flies] fyrir fullorðna“ og gagnrýnandi The Times skrifaði: „Ragnar Jónasson er sérfræðingur í miskunnarlausu myrkri; andrúmsloft ofóknarkenndrar innilokunarkennda sem hann skapar er svo taugatrekkjandi að maður getur ekki annað en ríghaldið sér í bókina.“

Fyrir síðustu jól valdi Göteposten í Svíþjóð Úti spennusögu ársins en þar sagði að bókin væri „uggvænlegt kammerstykki sem kveikir innilokunarkennd í yfirgefnum veiðikofa í íslenskum óbyggðum í hryllilegu óveðri. Ragnar færir sjónarhornið á milli vinanna fjögurra í dimmri nóttinni og lætur óþægilega stemmninguna magnast með hverju orði og hverri þögn.“ Þá sagði gagnrýnandi Kirkus Review í Bandaríkjunum að Úti væri „hrollköld dásemd“ og gagnrýnandi Canberra Times í Ástralíu skrifaði að meistari norrænu glæpasögunnar ylli ekki vonbrigðum í sínum nýja innilokunartrylli.

Framleiðslufyrirtæki hins kunna leikstjóra Ridley Scott hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn á sögunni en hún kemur nú út víða um lönd.

Úti kom út hér á landi árið 2021 og segir frá fjórum vinum sem leita skjóls í veiðikofa uppi á heiði um óveðursnótt í nóvember. Margt reynist þó hættulegra en stórhríð um vetur og ekki munu allir komast lífs af.

mbl.is