Tvö útköll vegna leka

Slökkvilið sinnti leka af flötum þökum þar sem niðurföll höfðu …
Slökkvilið sinnti leka af flötum þökum þar sem niðurföll höfðu teppst. Varðstjóri vonar að dagurinn beri engin ósköp í skauti sér, viðvaranir hafi verið gefnar út. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum í tveimur útköllum vegna leka á þaki,“ segir Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Segir Sigurjón þar hafa verið um að ræða flöt þök þar sem niðurföll hafi teppst og vatn lekið inn í híbýlin. Var annað útkallið í Reykjavík og hitt í Hafnarfirði.

Eitthvert tjón segir Sigurjón hafa orðið innanhúss í öðru tilfellinu en spurður út í daginn fram undan með tilliti til veðurspáa og viðvarana vegna asahláku og úrkomu segist hann vona það besta.

„Nú er búið að vara mikið við þessu og biðja fólk að losa frá niðurföllum og svo framvegis svo við vonum bara að þetta sleppi til,“ segir varðstjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert