Héldu að þau væru að sjá draug

Arnar Jónsson leikari er áttræður um helgina.
Arnar Jónsson leikari er áttræður um helgina. Mbl.is/Arnþór Birkisson

​Arnar Jónsson leikari býr á fjórðu hæð í lyftulausu húsi. Spurður hvort það sé ekki vesen þegar menn eru komnir á svona virðulegan aldur hristir hann höfuðið. „Nei, þvert á móti. Stiginn gerir mér miklu meira gagn en ógagn. Hann hjálpar mér að halda mér í þjálfun. Ég þarf líka á þessu að halda enda búinn að vera hálffótalaus síðan ég slasaði mig illa fyrir tæpum fjörutíu árum.“

Slysið sem Arnar vísar til varð með þeim hætti að stillans sem hann var að vinna á gaf sig með þeim afleiðingum að hann féll til jarðar. Arnari tókst að lenda á fótunum en braut á sér báða ökkla og hæla og þurfti að notast við hjólastól í hálft ár á eftir. Hann náði sér merkilega vel en kveðst þó koma til með að þurfa að glíma við eftirköstin út lífið. „Ég hafði alltaf verið fimur, getað farið heljarstökk á sviði og hvað eina og hélt að leikferlinum væri þarna lokið en sem betur fer gerðist það ekki,“ segir Arnar sem var nýbúinn að leika Gísla Súrsson í kvikmyndinni Útlaganum á þessum tíma. Spartverskan kappa. „Þessi fimi hjálpaði mér á sviðinu, ekki bara í hreyfingum, heldur ekki síður í orku. Þess vegna tala ég gjarnan um leikferil minn fyrir og eftir slysið.“

 – Varstu í fimleikum sem strákur?

„Nei, bara í leikfimi í skólanum heima á Akureyri. Ég áttaði mig snemma á því að ég væri liðugur og fimur. Ég þjálfaði mig ekki meðvitað til neins en fannst þetta spennandi og skemmtilegt. Síðar meir nýttist það allt á sviðinu.“

Arnar þjálfaði ekki bara líkamann, heldur líka röddina. „Richard Burton, sem var frá Wales, æfði röddina með því að fara upp á fjallstinda og hrópa tind af tindi. Sjálfur vann ég í sumarbúðum á Böggvisstöðum í Svarfaðardal í tvö sumur þegar ég var ungur maður og notaði hvert tækifæri til að ganga með krakkana á Böggvisstaðafjall og reyna að fá hljóm og dýpt í röddina. Þetta var mjög skemmtilegur tími og ég er enn að hitta fólk sem var þarna og man eftir mér. „Ég var hjá þér á Böggvisstöðum í gamla daga,“ segir það.“

Hann brosir.

Síðar komst Arnar aftur í hann krappan þegar hann velti bíl sínum í flughálku í Kömbunum. „Ég fór margar veltur og eins og þegar ég féll af stillansinum var eins og tíminn stæði í stað. Það er stórundarleg tilfinning. Eldri hjón, sem voru á eftir mér, námu staðar og hafa ábyggilega haldið að þau væru að sjá draug þegar ég steig út úr bílnum. En það var ekki skráma á mér. Það er svo furðulegt.“

Ítarlega er rætt við Arnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hann fagnar áttræðisafmæli sínu um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert