Boða atkvæðagreiðslu um verkföll á hótelum

Boðað hefur verið til atkvæðagreiðlsu.
Boðað hefur verið til atkvæðagreiðlsu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kjörstjórn Eflingar hefur auglýst leynilega rafræna atkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar á starfsstöðvum fyrirtækjanna Íslandshótel hf. og Fosshótel Reykjavík ehf.

Atkvæðagreiðsla hefst í hádeginu á morgun og lýkur klukkan 20 á mánudaginn eftir viku, 30. janúar.

Atkvæði greiða þeir félagsmenn sem boðunin tekur til, það er starfsfólk undir kjarasamningi um vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi. Það er sinnir þrifum á herbergjum og í sameiginlegum rýmum, störfum í eldhúsi, við framreiðslu veitinga, þvott og fleira.

Verkföll myndu hefjast 7. febrúar

Um er að ræða ótímabundna vinnustöðvun sem hefst klukkan tólf á hádegi 7. febrúar. Vinnustöðvunin tekur til allra starfa undir kjarasamningi Eflingar við SA um vinnu í veitinga- og gistihúsum, á eftirtöldum starfsstöðvum:

Fosshotel Reykjavík…………….. Þórunnartún 1, 105 Reykjavík
Hotel Reykjavík Grand………… Sigtún 28, 105 Reykjavík
Hotel Reykjavík Saga…………… Lækjargata 12, 101 Reykjavík
Hotel Reykjavík Centrum…….. Aðalstræti 16, 101 Reykjavík
Fosshotel Baron…………………… Barónsstígur 2-4, 101 Reykjavík
Fosshotel Lind…………………….. Rauðarárstígur 18, 105 Reykjavík
Fosshotel Rauðará……………….. Rauðarárstígur 37, 105 Reykjavík

Verkfallsstyrkur upp á 23.500

Fram kemur í verkfallsboðun sem samþykkt var á fundi samninganefndar í gærkvöldi að gert sé ráð fyrir verkfallsstyrk að upphæð 23.500 krónum fyrir hvern þann dag sem félagsmaður missir laun vegna verkfalls, miðað við fulla vinnu.

mbl.is