„Dagurinn er alltaf tregablandinn“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri og Guðni Th. Jóhannesson …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands áður en lagt var af stað í blysförina í Eyjum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum var afar ánægð með hvernig til tókst í dag þegar mbl.is tók hana tali í Eldheimum í kvöld. 

Í dag og í kvöld var þess minnst að slétt hálf öld er liðin frá því eldgos hófst í Vestmannaeyjum. 

„Þetta er vel heppnað og ég er þakklát fyrir þennan dag. Þakklát þeim sem tóku þátt í honum með okkur og mætingin var góð,“ segir Íris og segir flóknar tilfinningar fylgja þessum degi sem gerbreytti lífi fólks í Eyjum á sínum tíma. 

„Þessi dagur er alltaf tregablandinn. Hann er okkur erfiður en samt viljum við minnast hans. Ég get ekki verið annað en ánægð og þátttakan í kvöld sýndi að við þurfum svona stund. Fjöldi fólks mætti í blysförina og enn fleiri komu hér í hús í Eldheimum sem höfðu ekki treyst sér í gönguna. Ég er því auðmjúk eftir daginn. Ég var bara eins árs í gosinu og man auðvitað ekki eftir því en fyrir mér er þetta saga. Ég held að mikilvægt sé fyrir okkur Vestmannaeyinga og okkur Íslendinga að halda sögunni til haga. Minna okkur á hvað gekk hér á og hvernig íslenska þjóðin tók höndum saman og ákváðum að hér skyldi aftur vera byggð. Og í dag er þetta blómleg eyja. Maður finnur á því fólki sem upplifði þetta og hefur aldur til að muna að það skiptir máli að halda stund eins og þessa í dag. Enda eigum við margt að þakka þessu fólki sem kom hingað aftur og byggði upp okkar yndislegu eyju,“ segir Íris Róbertsdóttir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert