Í höndum flugfélaga að taka ákvarðanir um flug

Björgunarsveitarfólk aðstoðaði Icelandair í gær.
Björgunarsveitarfólk aðstoðaði Icelandair í gær. Ljósmynd/Landsbjörg

Veðuraðgerðarstjórn Isavia fundaði með flugfélögum og flugþjónustufyrirtækjum klukkan hálfsjö á laugardagskvöld til að fara yfir stöðuna með þeim. Veðurstofa Íslands hafði þá gefið út veðurviðvaranir fyrir suðvesturhluta landsins og búið var að spá hvassviðri, slæmu skyggni og dimmum éljum.

Útlit var þó fyrir að aðeins lengri veðurgluggi myndi gefast um sunnudagsmorgun en raun varð á, þar sem hægt yrði að nota landgöngubrýr til að koma farþegum inn í Leifsstöð, að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúi Isavia. 

Átta hundruð farþegar fastir í vélum

Átta flugvélar Icelandair frá Norður-Ameríku lentu um sexleytið í gærmorgun. Aðeins ein flugvél komst í tæka tíð áður en vindurinn náði því marki að ekki var hægt að hleypa farþegum frá borði. Um átta hundruð farþegar biðu því í marga klukkustundir á Keflavíkurflugvelli áður en þeir komust inn í Leifsstöð.

„Alltaf þegar að veðurspáin er þess eðlis að það er útlit fyrir að óveður hafi áhrif á starfsemi á flugvellinum, þá höldum við veðuraðgerðarstjórnarfund með flugrekendum og flugþjónustufyrirtækjum.

Við upplýsum um hvert veðurútlitið er og hvaða áhrif það mun að öllum líkindum hafa. Þá fáum við að vita hvaða ákvörðun flugfélögin munu taka á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggja fyrir,“ segir Guðjón, og ítrekar að það sé ávallt í höndum flugfélaga að taka ákvarðanir um að aflýsa eða fresta flugferðum.

mbl.is